Fótbolti

Vill hópfjármögnun fyrir Antony

Sindri Sverrisson skrifar
Antony fagnaði vel, ber að ofan og með risafána, eftir enn einn sigurinn með Real Betis um helgina.
Antony fagnaði vel, ber að ofan og með risafána, eftir enn einn sigurinn með Real Betis um helgina. Samsett/Getty

Eftir martraðartíma sinn hjá Manchester United hefur hinn brasilíski Antony svo sannarlega slegið í gegn í spænska boltanum sem lánsmaður hjá Real Betis.

Antony fékk mikið hrós frá Isco sem var valinn maður leiksins eftir borgarslaginn í Sevilla um helgina, þar sem Real Betis vann Sevilla 2-1.

„Við verðum að setja í gang hópfjármögnun svo að hann geti verið áfram hérna á næstu leiktíð. Við höfum fundið breytinguna frá því að hann kom hingað. Hann færir okkur margt,“ sagði Isco í beinni útsendingu DAZN.

Sigurinn gegn Sevilla var sjötti sigur Real Betis í röð í deildinni, þar sem liðið er nú jafnt Villarreal í 5.-6. sæti og í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Þá er liðið komið í 8-liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu.

Antony kom að láni til Real Betis í janúar en lánssamningurinn gildir fram á sumar. Hann er svo samningsbundinn næstu tvö árin hjá United sem keypti hann frá Ajax fyrir himinháa upphæð, eða 82 milljónir punda, sumarið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×