Körfubolti

Stór­kost­legur fyrri hálf­leikur breyttist í al­gjöra mar­tröð í þeim seinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Breki Björgvinsson spilaði mjög vel í fyrstu tveimur leikjunum í úrslitakeppninni.
Kristófer Breki Björgvinsson spilaði mjög vel í fyrstu tveimur leikjunum í úrslitakeppninni. Vísir/Jón Gautur

Ármenningum dreymir um sæti í úrvalsdeild karla í fyrsta sinn í 44 ár en þeir urðu fyrir miklu áfalli í miðri úrslitakeppninni.

Körfuboltamaðurinn efnilegi Kristófer Breki Björgvinsson varð nefnilega fyrir því áfalli að slíta krossband í öðrum leik Ármanns og Selfoss í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta.

Ármann segir frá meiðslum á miðlum sínum. Atvikið varð í seinni hálfleik en strákurinn hafði átt stórkostlegan fyrri hálfleik í þessum leik.

Kristófer Breki skoraði þannig 24 stig á aðeins tæpum átján mínútum en hann hitti úr 10 af 13 skotum sínum á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með martröð því Kristófer sleit krossband efir eina mínútu í seinni hálfleiknum.

Kristófer kom til Ármannsliðsins snemma á tímabilinu á venslasamningi frá Haukum og hefur spilað frábærlega.

Mikill stígandi hefur verið í hans leik. Hann skoraði 12,4 stig í leik í deildinni en var með 23 stig og 24 stig í fyrstu tveimur leikjunum í úrslitakeppninni.

„Því miður er tímabilinu lokið og verður Kristófer frá í allt að ár. Það er fyrst og fremst svekkjandi fyrir þennan efnilega leikmann að þurfa að sitja hjá í þann tíma og missa af þeirri baráttu sem framundan er með félagsliðum og landsliðum. Við erum stolt af því að hafa haft Kristófer í okkar liði og munum styðja hann í þeirri endurhæfingu sem framundan er,“ segir í frétt á miðlum Ármanns.

Ármann er komið í 2-0 á móti Selfossi en þarf einn sigur í viðbót til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum. Sigurvegari úrslitakeppninnar kemst upp í Bónus deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×