Körfubolti

Fær ekki að dæma vegna sam­skiptaörðug­leika

Sindri Sverrisson skrifar
Davíð Tómas Tómasson, fyrir miðju, hefur ekki dæmt neina leiki síðustu vikur.
Davíð Tómas Tómasson, fyrir miðju, hefur ekki dæmt neina leiki síðustu vikur. vísir/Diego

Jón Bender, formaður dómaranefndar KKÍ, hefur nú upplýst hvers vegna einn besti körfuboltadómari landsins hefur hvergi verið sýnilegur í stórleikjum undanfarið og í upphafi úrslitakeppni Bónus-deildanna.

„Ég get staðfest að Davíð hefur verið tekinn af niðurröðun á leiki, ótímabundið, vegna samskiptaörðugleika við dómaranefnd,“ segir Jón í stuttu samtali við Vísi.

Það hefur vakið athygli að kraftar Davíðs Tómasar Tómassonar, alþjóðadómara sem í vetur hefur dæmt fjölda leikja erlendis í alþjóðlegum keppnum, skuli ekki vera nýttir til að dæma í úrslitakeppninni á Íslandi.

Jón hefur ekki viljað tjá sig um málið við Vísi í vikunni, það er að segja ekki fyrr en í dag, eftir fund sem Davíð var boðaður á hjá dómaranefnd, í húsakynnum KKÍ. Þar staðfesti hann að Davíð hefði ekki verið settur á leiki síðan í undanúrslitum VÍS-bikarsins í mars - leik sem Davíð mun reyndar á endanum ekki hafa getað dæmt vegna veikinda.

Jón segist ekki geta tjáð sig um það í hverju samskiptaörðugleikarnir við Davíð felist. Aðspurður hvort til greina komi, eftir fundinn í dag, að Davíð dæmi í úrslitakeppninni kveðst Jón aðeins geta sagt það að um sé að ræða ótímabundna ráðstöfun.

Átta liða úrslit kvenna halda áfram í dag og á morgun en leikur tvö í átta liða úrslitum karla er svo á sunnudag og mánudag.

Úrslitakeppni kvenna:

  • Leikur 2
  • Föstudagur 4. apríl
  • 19.00 Tindastóll - Keflavík
  • 19.30 Grindavík - Haukar
  • Laugardagur 5. apríl
  • 18.15 Stjarnan - Njarðvík
  • 19.00 Valur - Þór Ak.
  • -
  • Leikur 3
  • Þriðjudagur 8. apríl
  • 19.00 Keflavík - Tindastóll
  • 19.30 Haukar - Grindavík
  • Miðvikudagur 9. apríl
  • 19.00 Þór Ak. - Valur
  • 19.30 Njarðvík - Stjarnan

Leikir 4, ef þarf, eru 12. og 13. apríl en oddaleikir 16. apríl.

Úrslitakeppni karla:

  • Leikur 2
  • Sunnudagur 6. apríl
  • 19.00 Grindavík - Valur
  • 19.30 Keflavík - Tindastóll
  • Mánudagur 7. apríl
  • 19.00 ÍR - Stjarnan
  • 19.30 Álftanes - Njarðvík
  • -
  • Leikur 3
  • Fimmtudagur 10. apríl
  • 19.00 Tindastóll - Keflavík
  • 19.30 Valur - Grindavík
  • Föstudagur 11. apríl
  • 19.00 Stjarnan - ÍR
  • 19.30 Njarðvík - Álftanes

Leikir 4, ef þarf, eru 14. og 15. apríl en oddaleikir 18. apríl.


Tengdar fréttir

Einn besti dómari landsins fær ekki leik

Athygli vekur að Davíð Tómas Tómasson, einn fremsti körfuboltadómari landsins, er ekki á meðal þeirra sem fá að dæma í fyrstu umferð úrslitakeppni Bónus-deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×