Vala Kristín hefur fengið mikið lof fyrir hlutverk sitt sem þáttastjórnandi í sýningunni Þetta er Laddi. Hún er líka höfundur sýningarinnar ásamt Ólafi Egilssyni. Sýningin hefur hlotið mikið lof og fékk meðal annars fimm stjörnur frá leikhúsgagnrýnanda Vísis.
„Katrín Halldóra mun taka við af Völu á föstudaginn. Þetta verður fyrsta hlutverkið sem Katrín Halldóra stígur inn í eftir Elly, sem kvaddi í mars eftir rúmlega 260 sýningar. Þetta er Laddi hefur slegið í gegn og er uppselt langt fram í tímann,“ segir í fréttatilkynningu frá Borgarleikhúsinu.

Ólafur Egilsson skrifaði einmitt handritið af Elly og eru hann og Katrín Halldóra því ekki að vinna saman í fyrsta skipti.
„Það er algjörlega frábært að fá Katrínu Halldóru. Ég kynntist Kötu í Elly. Allir vita að hún syngur eins og engill. Og ekki er nú leiðinlegt hvað hún er svakalega skemmtileg og flinkur gaman- og spunaleikari,“ segir Ólafur um leikaravalið.