Körfubolti

Jokic tjáir sig um ó­væntan brott­rekstur þjálfarans

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Malone hafði þjálfað Nikola Jokic í tíu ár þegar hann var rekinn frá Denver Nuggets.
Michael Malone hafði þjálfað Nikola Jokic í tíu ár þegar hann var rekinn frá Denver Nuggets. getty/Michael Reaves

Nikola Jokic var með þrefalda tvennu í fyrsta leik Denver Nuggets eftir að Michael Malone var óvænt rekinn sem þjálfari liðsins. Jokic sagði að síðustu klukkutímar hafi verið erfiðir.

Á þriðjudaginn var Malone látinn taka pokann sinn hjá Denver ásamt framkvæmdastjóranum Calvin Booth.

Tíðindin komu flestum í opna skjöldu enda er úrslitakeppnin handan við hornið. Malone stýrði Denver í áratug og gerði liðið að meisturum 2023.

Malone er eini þjálfarinn sem Jokic hefur haft í NBA og augljóslega var honum brugðið við tíðindin af brottrekstri hans. Hann sagði að Josh Kroenke, sem er í eigendahópi Denver, hefði tjáð honum að ákveðið hefði verið að segja Malone upp.

„Ég vissi þetta aðeins á undan öðrum. Hann sagði mér að þeir hefðu tekið ákvörðun. Þetta var ekki samtal. Þetta var ákvörðun. Hann sagði mér af hverju. Svo ég hlustaði og samþykkti. Ég segi ykkur ekki hvað hann sagði mér. Það er einkamál,“ sagði Jokic sem setti sig í samband við Malone eftir að hann fékk fréttirnar.

„Ég sendi honum skilaboð. Þetta var tíu ára samband svo þetta var erfiður dagur fyrir alla, eflaust sérstaklega fyrir hann og fjölskyldu hans. En svona er bransinn.“

David Adelman tók við Denver til bráðabirgða. Hann er með þjálfaragenið enda sonur Ricks Adelman sem stýrði meðal annars Portland Trail Blazers og Sacramento Kings á árum áður.

Denver vann einmitt Sacramento í nótt, 116-124. Jokic skoraði tuttugu stig, tók tólf fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Þetta var 33. þrennan hans á tímabilinu.

Denver er í 4. sæti Vesturdeildarinnar og ekki enn öruggt með sæti í úrslitakeppninni. Liðið getur enn farið í umspil um sæti í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×