Innlent

Sauð á starfs­manni sem löðrungaði í­búa á hjúkrunar­heimili

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum.
Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður á hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu hefur verið dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða íbúa á heimilinu 450 þúsund krónur í bætur. Starfsmaðurinn, kona á sjötugsaldri, sló íbúann, konu á ónefndum aldri, með lófa sínum þegar hún ók honum í hjólastól.

Það var miðvikudaginn 23. mars sem atvik áttu sér stað. Starfsmanninum var gefið að sök að hafa innandyra á hjúkrunarheimilinu veist með ofbeldi að konunni, slegið hana með flötum lófa í andlitið með þeim afleiðingum að hún hlaut mar við auga og enni.

Það voru mannauðsstjóri og mannauðsráðgjafi á hjúkrunarheimilinu sem tilkynntu málið til lögreglu viku síðar. Konan hefði verið óróleg, uppstökk og reið þennan dag. Starfsmanninum hefði fundist hún vera að áreita sig, slegið ítrekað til starfsmannsins og skyrpt að henni.

Eftir átök þeirra á milli hafi starfsmaðurinn ekið konunni í hjólastól í átt að matsalnum. Hún hafi verið orðljót og starfsmaðurinn slegið snögglega þéttingsfast með hægri hendi í andlit brotaþola. Gleraugu konunnar hafi slegist á nefbergið og í fang konunnar.

Annar starfsmaður var vitni að atvikinu og greip inn í. Starfsmaðurinn hafnaði því að hafa slegið konuna. Vitni bar þó um annað og þá greindi annað vitni fyrir dómi frá því að starfsmaðurinn hefði í einkasamtali viðurkennt að hafa slegið konuna.

Var starfsmaðurinn dæmdur í þrjátíu daga fangelsi og til að greiða 450 þúsund til konunnar í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×