Upp­gjörið: Aftur­elding - ÍBV 0-0 | Marka­laust í nýliða­slagnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025
Breiðablik - Afturelding Besta Deild Karla Vor 2025 vísir/Diego

Nýliðar Bestu deildarinnar, Afturelding og ÍBV, gerðu markalaust jafntefli sín á milli í fyrsta úrvalsdeildarleiknum frá upphafi á Malbiksstöðinni við Varmá. Bæði lið eru því með eitt stig að tveimur umferðum loknum.

Eyjamenn mættu varfærnislega til leiks í dag. Þeir lögðust frekar aftarlega á völlinn og leyfðu Mosfellinum að leika sér með boltann og heimamenn reyndu sendingar á bakvið vörn Eyjamanna sem gengu sjaldnast vel.

Bæði lið sköpuðu helst hættu með því að vinna boltann á hættulegum stöðum og voru Mosfellingar stundum full kærulausir í sínu uppspili sem skapaði hættulegar skyndisóknir Eyjamenn. Heimaliðið ógnaði minna, fengu nokkrar aukaspyrnur á hættulegum stöðum sem lítil hætta skapaðist úr.

Oliver Heiðarsson fékk langbesta færi fyrri hálfleiksins og það kom einmitt eftir skelfileg mistök í vörn Aftureldingar. Oliver Heiðarsson var einn gegn Jökli Andréssyni í markinu en þrumaði rétt yfir markið. Staðan í hálfleik 0-0.

Í seinni hálfleik voru gestirnir mun sterkari og Mosfellingum gekk bölvanlega að halda boltanum almennilega. Þeir héldu áfram að tapa boltanum á hættulegum stöðum og komust Eyjamenn oft á tíðum í hættulegar skyndisóknir og sköpuðu sér nokkur opin færi.

Mosfellingar fengu sitt besta færi á 70. mínútu en Marcel Zapytowski í marki Eyjamanna varði þá vel frá Georgi Bjarnasyni af stuttu færi.

Tvö bestu færi leiksins komu hins vegar á lokamínútunum. Eyjamaðurinn Omar Sowe átti þrumuskot í innanverða stöngina á 87. mínútu og í uppbótartíma fékk Sowe svo algjört dauðafæri en kinksaði boltann og skaut framhjá.

Niðurstaðan markalaust jafntefli og nýliðarnir því báðir komnir með eitt stig í Bestu deildinni eftir töp í fyrstu umferðinni.

Atvik leiksins

Omar Sowe hefði átt að tryggja Eyjamönnum sigur í uppbótartíma. Hann fékk þá boltann frá Oliver Heiðarssyni, var aleinn rétt utan við markteig en sópaði boltanum einhvern veginn framhjá fjærstönginni. Algjört dauðafæri sem hann kláraði illa.

Í uppbótartíma varð leiðinlegt atvik þegar Axel Óskar Andrésson og Milan Tomic skölluðu mjög harkalega saman í vítateignum. Báðir leikmenn þurftu að fara af velli með skurði en virtust þó ágætlega haldnir í leikslok.

Stjörnur og skúrkar

Oliver Heiðarsson skapaði oft mikinn usla á hægri væng Eyjamanna, hann býr yfir gríðarlegum hraða sem á eftir að gera einhverjum varnarmönnum erfitt fyrir í sumar. Þorlákur Breki Baxter átti ágæta spretti en það dró vel af honum í síðari hálfleik. Vörn Eyjamanna var öflug með þá Mattias Edeland og Sigurð Arnar öfluga fyrir miðju.

Axel Óskar stöðvaði Eyjamenn í tví- eða þrígang í hröðum upphlaupum en líkt og aðrir leikmenn Aftureldingar gekk honum stundum illa að koma boltanum í spil. Miðjumenn Aftureldingar voru í brasi, töpuðu boltanum oft undir lítilli pressu og náðu lítið að skapa fyrir samherja sína framar á vellinum.

Dómarinn

Sigurður Hjörtur Þrastarson átti heilt yfir ágætan dag. Hann gerði einhver mistök eins og gengur og gerist en gulu spjöldin sex sem hann gaf voru öll verðskulduð.

Stemmning og umgjörð

Það blés duglega í Mosfellsbænum í dag en mætingin var engu að síður góð enda um að ræða fyrsta leik Aftureldingar í efstu deild karla. Mosfellingar skelltu í leik fyrir krakkana í hálfleik og umgjörðin hjá þeim var góð.

Viðtöl

„Þetta var ekki góð frammistaða“

Magnús Már Einarsson var á því að niðurstaðan úr leiknum gegn ÍBV hefði verið sanngjörn en sagði sína menn vanari að sýna betri frammistöðu sóknarlega en þeir gerðu í dag.

„Já ætli það ekki? Þetta var ekki góður leikur af okkar hálfu og við getum betur en þetta. Varnarlega fannst mér menn vera að leggja allt í þetta, vera að henda sér fyrir bolta hér í lokin. Við þurfum að skapa meira og ógna meira á síðasta þriðjungi, það er klárt,“ sagði Magnús Már við Vísi eftir leik.

„Fullt af atriðum sem við þurfum að skoða, þetta var ekki góð frammistaða. Ég er ánægður að fá stigið miðað við spilamennskuna því við vitum allir að við getum betur en þetta. Þetta var ekki frammistaða á pari hjá okkur.“

Magnús Már, þjálfari Aftureldingar.vísir

Mosfellingar eru á sínu fyrsta tímabili í efstu deild karla og Magnús sagði sína menn þurfa að læra hratt.

„Við erum að takast á við nýtt verkefni hér og þurfum að læra hratt. Ég hefði viljað fá okkur aðeins grimmari fram á við í dag og auðvitað fáum við einhverjar stöður og fyrirgjafir sem við hefðum getað gert eitthvað úr. Heilt yfir erum við vanari að sýna betri sóknarleik en við gerðum í dag.“

Elmar Kári Enesson Cogic kom inn af bekknum hjá Aftureldingu í dag líkt og í fyrsta leiknum gegn Breiðablik. Hann var lykilaður í liði Aftureldingar í Lengjudeildinni í fyrra.

„Hann kom flottur inn í dag og er á góðri leið, að koma til baka eftir fjarveru vegna meiðsla. Hann verður bara betri með hverjum deginum héðan af. Hann mun koma vaxandi inn í þetta tímabil.“

Undir lok leiks lenti miðvörðurinn Axel Óskar Andrésson í harkalegu samstuði við Milan Tomic leikmann ÍBV og þurftu báðir leikmenn að fara af velli með vafning um höfuðið. Magnús Már taldi Axel þó vera í fínu lagi.

„Ég held hann sé bara góður, hafi fengið ljótan skurð og það þarf örugglega að suma einhver spor. Sjúkraþjálfarinn kíkti á hann og ég held það sé í fínu lagi þannig.“

„Besti leikur ÍBV undir minni stjórn“

Þorlákur Árnason þjálfari Eyjamanna fannst ÍBV eiga skilið þrjú stig úr leiknum í dag.

„Við náttúrulega misnotuðum mikið af opnum færum og þess vegna fór 0-0 en ekki 1-0, 2-0 eða 3-0. Við verðum bara að virða stigið, við spiluðum gríðarlega vel og áttum kannski skilið að fá þrjú stig en það er ekki spurt að því,“ sagði Þorlákur við Vísi eftir leik í dag.

ÍBV tapaði 2-0 fyrir Víkingum í fyrsta leik en leikurinn í dag spilaðist allt öðruvísi og sýndu Eyjamenn oft á tíðum góða takta sóknarlega.

„Mjög ólíkir leikir og við erum svolítið í núinu, við spiluðum bara gríðarlega vel í dag og ég held að þetta sé besti leikur ÍBV undir minni stjórn,“ en Þorlákur tók við Eyjaliðinu í vetur.

Þorlákur Árnason tók við liði ÍBV í vetur.Mynd: ÍBV

ÍBV hefur spilað fyrstu tvo leiki Bestu deildarinnar á útivelli en framundan eru tveir heimaleikir, fyrst í bikar gegn Víkingum og svo í deild gegn Fram. 

„Við erum náttúrulega að fara að spila á Þórsvellinum fyrst, bíðum eftir Hásteinsvelli og það verður vel þegið að spila sinn fyrsta heimaleik í þrettánda eða fjórtánda leik sem við spilum í vetur. Ég hlakka mikið til að spila heima, það er allt öðruvísi.“

Hann segist ánægður með holninguna á Eyjaliðinu nú þegar tvær umferðir eru búnar af Bestu deildinni og útilokaði ekki að ÍBV myndi bæta leikmönnum í hópinn.

„Mjög sáttur við hópinn. Við vorum á síðustu metrunum að setja hópinn saman og mér fannst vinnuframlagið í þessum báðum leikjum bara frábært.“

„Það er alltaf möguleiki [að fá inn nýja menn] á meðan félagaskiptaglugginn er opinn, það er ekkert öðruvísi hjá ÍBV en öðrum liðum. Það gæti alveg gerst en það er ekkert sem er klárt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira