Uppgjörið: Fram - Breiðablik 4-2 | Skoruðu fjögur mörk á minna en tíu mínútum til að tryggja sigur Kári Mímisson skrifar 13. apríl 2025 21:00 Fram skoraði fjögur mörk á tæpum tíu mínútna kafla. Fram átti ótrúlega endurkomu í seinni hálfleik og sigraði Breiðablik 4-2 í annarri umferð Bestu deildar karla. Blikar tóku tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en Framarar settu fjögur mörk á tæpum tíu mínútna kafla seint í seinni hálfleik og tryggðu sín fyrstu þrjú stig á tímabilinu. Leikurinn fór vel af stað og var jafnræði með liðunum framan af. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 17. mínútu og þar var að verkum Óli Valur Ómarsson. Blikar unnu boltann á miðjum vellinum þar sem Anton Logi Lúðvíksson fann Óla Val sem brunaði upp vinstri vænginn áður en hann skoraði með föstu skoti í fjærhornið. Breiðablik hélt áfram að ógna marki Fram eftir þetta og tókst þeim að tvöfalda forystu sína á 38. mínútu þegar Tobias Thomsen skoraði eftir fyrirgjöf frá Aroni Bjarnasyni. Staðan 2-0 í hálfleik fyrir gestina úr Kópavogi. En Framarar sem spiluðu með vindinn í bakinu í seinni hálfleik mættu tvíefldir til baka úr búningsherberginu. Liðið hafði ekki náð skoti að marki í fyrri hálfleiknum en ógnaði strax frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Eftir að hafa sótt stíft nánast í 25 mínútur kom loksins fyrsta mark Fram og það gerði Grindvíkingurinn knái, Sigurjón Rúnarsson. Eftir hornspyrnu Fram barst boltinn á Simon Tibbling sem átti fast skot sem fór af varnarmanni Breiðabliks áður hann féll beint fyrir fætur Sigurjóns sem setti boltann auðveldlega í netið. Mörk breyta leikjum sagði einhver eitt sinn og aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Fram en þar var að verkum fyrirliðinn sjálfur, Kennie Chopart. Simon Tibbling spyrnti þá boltanum inn á teiginn þar sem Gabríel Snær náði að skalla í burtu en ekki lengra en beint fyrir Kennie sem átti fast skot í nærhornið og Fram búið að jafna. Guðmundur Magnússon skoraði svo næstu tvö mörk. Það fyrra eftir að Vuk Oskar hafði átt fast skot sem Anton Ari varði áður en boltinn féll beint fyrir Guðmund sem skoraði þægilega í tómt markið. Aðeins tveimur mínútum seinna kom svo fjórða mark Fram þegar Guðmundur hrifsaði boltann af Viktor Erni Margeirssyni rétt fyrir utan vítateig Blika áður en hann vippaði boltanum svo laglega yfir Anton Ara. Hreint út sagt ótrúlegur tíu mínútna kafli hjá Fram. Meira markvert gerðist ekki í leiknum og Fram komið með sín fyrstu stig í Bestu deildinni þetta árið. Stjörnur og skúrkar Það voru ansi margir góðir hjá Fram á þessum tíu mínútum leiksins þegar liðið gerði út um þetta í dag. Simon Tibbling var mjög flottur sem og Sigurjón Rúnarsson en fyrir mér er það innkoma Guðmundar Magnússonar sem verður að ræða. Hann kemur inn á 66. mínútu leiksins og 15 mínútum seinna er Fram búið að skora fjögur mörk. Varnarlega litu Blikar ekkert alltof vel út í þessum mörkum og í rauninni hefði Fram alveg hæglega getað skorað fleiri mörk í seinni hálfleiknum svo við setjum bara alla vörn Blika sem skúrk dagsins. Atvik leiksins Þau eru auðvitað fjögur þessi atvik leiksins en ég verð þó að setja þetta á fjórða mark Fram. Hvernig Guðmundur bara étur Viktor Örn áður en hann vippar boltanum glæsilega yfir Anton í markinu er ekkert annað en gargandi snilld eins og Gaupi myndi segja. Dómarinn Flottur dagur hjá þriðja liðinu í dag sem skiluðu þessu verkefni fagmannlega af sér. Stemning og umgjörð Frábær umgjörð á Lamhagavellinum sem er sennilega einn flottasti völlur landsins í dag. Helgi Sig hélt góða ræðu fyrir gullmiðahafa fyrir leikinn þar sem hann fór yfir það með þeim hvernig þeir ætluðu sér að vinna Blika. Mætingin mætti vera betri en eftir þessa frammistöðu trúi ég ekki öðru en að Framarar fjölmenni á völlinn næsta laugardag þegar FH mætir í heimsókn í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Viðtöl Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var að vonum svekktur með tap sinna manna gegn Fram í kvöld. „Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við spiluðum frábærlega í fyrri hálfleik, komum okkur í góða stöðu og hefðu getað komið okkur í enn þá betri stöðu. Við sáum alveg undir lok fyrri hálfleiks í hvað stefndi þegar þeir voru komnir í eitthvað „gung ho fökk it mode“. Tilbúnir að slást við okkur og leysa leikinn upp. Við ætluðum að taka á móti því en gerðum það svo sannarlega ekki.“ Halldór heldur svo áfram og segir að hann hafi séð í hvað stefndi þegar liðið komast 2-0 yfir. Fram hafi spilað fast gegn þeim en þeim hafi ekki tekist að svara til baka. „Mér fannst við heilt yfir góðir í fyrri hálfleik en þegar við erum komnir í 2-0 þá fannst mér þeir vera búnir að missa hausinn. Fred hefði getað verið á fjórum gulum spjöldum í fyrri hálfleik. Þeir voru mjög aggresívir og þeir fá mómentum með því að þetta sé í lagi, línan var þannig. Leikurinn verður mjög harður og skrítinn. Þeir eru mjög harðir hér undir lok fyrri hálfleiks og það er alveg ljóst hvað þeir ætluðu sér. Við ætluðum að svara því í seinni hálfleik, sem að við gerðum ekki og þá bara endar þetta svona.“ Spurður að því hvað hafi gerst á þessum 10 mínútna kafla í seinni hálfleik þegar Fram skorar sín mörk segir Halldór að hans menn hafi verið of linir. Það hafi komið upp hræðsla í liðið sem Fram hafi nýtt sér. „Við erum bara soft allan seinni hálfleikinn og þetta er í rauninni bara afleiðing af því. Svo skora þeir 2-1 markið og þá finnst mér við einhvern veginn verða hræddir. Í staðinn fyrir að við sækjum þetta þriðja mark og klárum þetta, sem við reynum að gera, Tobias og Valgeir komast báðir í góðar stöður þá ganga þeir á lagið. Heilt yfir var þetta bara soft í seinni hálfleik.“ Besta deild karla Fram Breiðablik
Fram átti ótrúlega endurkomu í seinni hálfleik og sigraði Breiðablik 4-2 í annarri umferð Bestu deildar karla. Blikar tóku tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en Framarar settu fjögur mörk á tæpum tíu mínútna kafla seint í seinni hálfleik og tryggðu sín fyrstu þrjú stig á tímabilinu. Leikurinn fór vel af stað og var jafnræði með liðunum framan af. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 17. mínútu og þar var að verkum Óli Valur Ómarsson. Blikar unnu boltann á miðjum vellinum þar sem Anton Logi Lúðvíksson fann Óla Val sem brunaði upp vinstri vænginn áður en hann skoraði með föstu skoti í fjærhornið. Breiðablik hélt áfram að ógna marki Fram eftir þetta og tókst þeim að tvöfalda forystu sína á 38. mínútu þegar Tobias Thomsen skoraði eftir fyrirgjöf frá Aroni Bjarnasyni. Staðan 2-0 í hálfleik fyrir gestina úr Kópavogi. En Framarar sem spiluðu með vindinn í bakinu í seinni hálfleik mættu tvíefldir til baka úr búningsherberginu. Liðið hafði ekki náð skoti að marki í fyrri hálfleiknum en ógnaði strax frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Eftir að hafa sótt stíft nánast í 25 mínútur kom loksins fyrsta mark Fram og það gerði Grindvíkingurinn knái, Sigurjón Rúnarsson. Eftir hornspyrnu Fram barst boltinn á Simon Tibbling sem átti fast skot sem fór af varnarmanni Breiðabliks áður hann féll beint fyrir fætur Sigurjóns sem setti boltann auðveldlega í netið. Mörk breyta leikjum sagði einhver eitt sinn og aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Fram en þar var að verkum fyrirliðinn sjálfur, Kennie Chopart. Simon Tibbling spyrnti þá boltanum inn á teiginn þar sem Gabríel Snær náði að skalla í burtu en ekki lengra en beint fyrir Kennie sem átti fast skot í nærhornið og Fram búið að jafna. Guðmundur Magnússon skoraði svo næstu tvö mörk. Það fyrra eftir að Vuk Oskar hafði átt fast skot sem Anton Ari varði áður en boltinn féll beint fyrir Guðmund sem skoraði þægilega í tómt markið. Aðeins tveimur mínútum seinna kom svo fjórða mark Fram þegar Guðmundur hrifsaði boltann af Viktor Erni Margeirssyni rétt fyrir utan vítateig Blika áður en hann vippaði boltanum svo laglega yfir Anton Ara. Hreint út sagt ótrúlegur tíu mínútna kafli hjá Fram. Meira markvert gerðist ekki í leiknum og Fram komið með sín fyrstu stig í Bestu deildinni þetta árið. Stjörnur og skúrkar Það voru ansi margir góðir hjá Fram á þessum tíu mínútum leiksins þegar liðið gerði út um þetta í dag. Simon Tibbling var mjög flottur sem og Sigurjón Rúnarsson en fyrir mér er það innkoma Guðmundar Magnússonar sem verður að ræða. Hann kemur inn á 66. mínútu leiksins og 15 mínútum seinna er Fram búið að skora fjögur mörk. Varnarlega litu Blikar ekkert alltof vel út í þessum mörkum og í rauninni hefði Fram alveg hæglega getað skorað fleiri mörk í seinni hálfleiknum svo við setjum bara alla vörn Blika sem skúrk dagsins. Atvik leiksins Þau eru auðvitað fjögur þessi atvik leiksins en ég verð þó að setja þetta á fjórða mark Fram. Hvernig Guðmundur bara étur Viktor Örn áður en hann vippar boltanum glæsilega yfir Anton í markinu er ekkert annað en gargandi snilld eins og Gaupi myndi segja. Dómarinn Flottur dagur hjá þriðja liðinu í dag sem skiluðu þessu verkefni fagmannlega af sér. Stemning og umgjörð Frábær umgjörð á Lamhagavellinum sem er sennilega einn flottasti völlur landsins í dag. Helgi Sig hélt góða ræðu fyrir gullmiðahafa fyrir leikinn þar sem hann fór yfir það með þeim hvernig þeir ætluðu sér að vinna Blika. Mætingin mætti vera betri en eftir þessa frammistöðu trúi ég ekki öðru en að Framarar fjölmenni á völlinn næsta laugardag þegar FH mætir í heimsókn í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Viðtöl Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, var að vonum svekktur með tap sinna manna gegn Fram í kvöld. „Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við spiluðum frábærlega í fyrri hálfleik, komum okkur í góða stöðu og hefðu getað komið okkur í enn þá betri stöðu. Við sáum alveg undir lok fyrri hálfleiks í hvað stefndi þegar þeir voru komnir í eitthvað „gung ho fökk it mode“. Tilbúnir að slást við okkur og leysa leikinn upp. Við ætluðum að taka á móti því en gerðum það svo sannarlega ekki.“ Halldór heldur svo áfram og segir að hann hafi séð í hvað stefndi þegar liðið komast 2-0 yfir. Fram hafi spilað fast gegn þeim en þeim hafi ekki tekist að svara til baka. „Mér fannst við heilt yfir góðir í fyrri hálfleik en þegar við erum komnir í 2-0 þá fannst mér þeir vera búnir að missa hausinn. Fred hefði getað verið á fjórum gulum spjöldum í fyrri hálfleik. Þeir voru mjög aggresívir og þeir fá mómentum með því að þetta sé í lagi, línan var þannig. Leikurinn verður mjög harður og skrítinn. Þeir eru mjög harðir hér undir lok fyrri hálfleiks og það er alveg ljóst hvað þeir ætluðu sér. Við ætluðum að svara því í seinni hálfleik, sem að við gerðum ekki og þá bara endar þetta svona.“ Spurður að því hvað hafi gerst á þessum 10 mínútna kafla í seinni hálfleik þegar Fram skorar sín mörk segir Halldór að hans menn hafi verið of linir. Það hafi komið upp hræðsla í liðið sem Fram hafi nýtt sér. „Við erum bara soft allan seinni hálfleikinn og þetta er í rauninni bara afleiðing af því. Svo skora þeir 2-1 markið og þá finnst mér við einhvern veginn verða hræddir. Í staðinn fyrir að við sækjum þetta þriðja mark og klárum þetta, sem við reynum að gera, Tobias og Valgeir komast báðir í góðar stöður þá ganga þeir á lagið. Heilt yfir var þetta bara soft í seinni hálfleik.“