Sport

Fjögurra ára strákur gerði allt brjálað í höllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hinn ungi Brayden Yorke heillaði alla upp úr skónum og reif upp stemmninguna í höllinni.
Hinn ungi Brayden Yorke heillaði alla upp úr skónum og reif upp stemmninguna í höllinni. Skjámynd/USAToday

Brayden Yorke er kannski bara fjögurra ára gamall strákur en hann er þegar kominn með það á ferilskrána að hafa búið til mikla stemningu á íshokkíleik.

Yorke mætti á dögunum með foreldrum sínum á leik Anaheim Ducks og Calgary Flames í NHL deildinni.

Hann var klæddur í Anaheim Ducks treyju og hafði greinilega mjög gaman af leiknum. Þeir sem stjórna stóra skjánum í höllinni tóku eftir stráknum og settu hann á Jumbotron skjáinn.

Það var ekki sökum að spyrja en að stuðningsmenn Anaheim Ducks voru líka hrifnir af stráknum og fögnuðum honum vel þegar hann kom á skjáinn. Svo kom meiri fögnuður í hvert skipti sem hann kom aftur á stóra skjáinn.

Strákurinn brosti líka út að eyrum þegar hann sá sjálfan sig á skjánum. Allir höfðu rosalega gaman af og það varð allt brjálað í höllinni.

Það myndaðist svo mikil stemning í höllinni að leikmenn Anaheim Ducks fóru líka í mikið stuð og snéru við tapi í 4-3 sigur.

Eftir leikinn var Brayden Yorke síðan boðið niður í búningsklefa Anaheim Ducks þar sem hann fékk að hitta stjörnurnar. Þeir voru honum mjög þakklátir fyrir að rífa upp stemmninguna í höllinni þegar þeir þurftu svo sannarlega á því að halda.

USA Today fjallaði um strákinn á stóra stóra skjánum og má sjá það hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×