Erlent

Leið­togar minnast páfans

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Margir hafa safnast saman í Vatíkaninu til að syrgja páfann.
Margir hafa safnast saman í Vatíkaninu til að syrgja páfann. EPA

Þjóðarleiðtogar hafa margir hverjir birt minningarorð um Frans páfa sem lést í morgun. Hans er minnst sem hvetjandi og auðmjúkum manni auk sameiningartákni manna.

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, tjáði sig á samfélagsmiðlinum X þar sem hún segist hafa notið þeirra forréttinda að njóta vináttu páfans.

„Þetta eru fréttirnar sem hryggja okkur mjög, því frábær maður og mikill prestur hefur yfirgefið okkur. Ég naut þeirra forréttinda að njóta vináttu hans, ráðlegginga hans og kenninga, sem brugðust aldrei, jafnvel á augnablikum prófrauna og þjáningar,“ skrifar Meloni.

„Frá Búenos Aíres til Rómar, Frans páfi vildi að kirkjan myndi færa gleði og von til þeirra fátækustu. Til að sameina fólkið með hvor öðru og með náttúru,“ skrifar Emmanuel Macron, forseti Frakklands á samfélagsmiðillinn X. Hann vottar kaþólikkum samúð sína.

Karl Bretakonungur hefur einnig vottað virðingu sína og segir bæði hann og Kamillu drottningu afar sorgmædd vegna fregnanna. Hann segir páfans verða minnst fyrir samúð hans, umhyggju fyrir einingu kirkjunnar og óþreytandi vilja hans til að vinna í sameiginlegum málum allra trúaðra.

„Hann hvatti milljónir til dáða, langt umfram kaþólsku kirkjuna, með auðmýkt sinni og svo hreinni ást fyrir þeim sem minna mega sín,“ skrifaði Ursual von der Leyen, forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins.

Micheál Martin, forsætisráðherra Írlands tjáði sig einnig á samfélagsmiðlum.

„Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og íbúa Írlands votta ég öllum sem syrgja hann innilegustu samúð mína,“ skrifar hann.

„Arfleið Frans páfa er í skilaboðum hans um frið, sátt og sameiningu sem lifir í hjarta þeirra sem hann hreif.“

Vólódímír Selenskí minntist páfans í færslu á samfélagsmiðlum.

„Hann vissi hvernig ætti að vekja upp von, linna þjáningar með bæn og hlúa að sameiningu. Hann bað fyrir frið í Úkraínu og fyrir Úkraínubúa. Við syrgjum saman með kaþólíkkum og öllum kristintrúuðum sem litu upp til Frans páfa fyrir trúarlegan stuðning,“ skrifar Selenskí auk þess að birta mynd af honum með páfanum.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur einnig sent samúðarkveðjur samkvæmt umfjöllun Reuters.

„Vinsamlegast samþykktu mínar innilegustu samúðarkveðjur vegn fráfalls hins heilaga Frans páfa,“ skrifaði Pútín í skilaboðum til Kevin Joseph Farrell kardínála, Camerlengo í heilögu rómversku kirkjunni. 

„Á þessum sorglega tíma langar mig að koma á framfæri við þig og kaþólska klerkinn öllum samúðar- og stuðningsorðum mínum,“ skrifar Rússlandsforsetinn.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vottaði samúð sína í tilkynningu á samfélagsmiðlum Hvíta hússins.

JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, sem átti fund með hægri hönd páfans fyrir fáeinum dögum birti einnig færslu á samfélagsmiðlum. Þar segist hann einnig hafa hitt páfann í gær.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, vottaði einnig samúð sína samkvæmt ísraelska fjölmiðlinum Times of Israel. Hann sagði páfann hafa viðurkennt palestínska ríkið og heimilað að palestínski fáninn yrði dreginn að húni í Vatíkaninu.

„Í dag misstum við tryggan vin palestínskra fólksins og lögmætum réttindum þeirra,“ sagði Abbas. 

Kaþólska kirkjan á Íslandi lýsti hversu mikil harmafregn andlátið væri.

„Í morgun, annan dag páska, 21. apríl 2025 barst okkur sú harmafregn að Frans páfi okkar væri látinn. Ásamt öllum prestum, reglufólki og trúuðum í Reykjavíkurbiskupsdæmi sameinumst við Kaþólskum um allan heim og biðjum fyrir sál hans,“ stendur á Facebook síðu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Samkvæmt umfjöllun Ríkisútvarpsins minntist David Bartimej Tencer, kaþólski biskupinn á Íslandi páfans í messu í Landakotskirkju fyrr í dag.

Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, minnist Frans páfa „með sorg og þakklæti í hjarta.“

„Megi minning þessa einstaka páfa lifa og arfleið hans hafa áhrif um ókomna tíð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×