Innlent

Á­fram hag­kvæmara að kaupa fast­eign en hluta­bréf

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur HMS segir að enn og aftur sé búist við að íbúðaverð hækki umfram almenna verðlagsþróun. Ekki sé verið að byggja nóg.
Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur HMS segir að enn og aftur sé búist við að íbúðaverð hækki umfram almenna verðlagsþróun. Ekki sé verið að byggja nóg. Vísir

Íbúðir hér á landi hafa hækkað meira og verð þeirra sveiflast minna en úrvalsvísitala Kauphallarinnar síðustu tíu ár. HMS telur þetta vera til marks um óeðlilega stöðu á eignamarkaði. Gert er ráð fyrir sömu þróun næstu misseri þar sem ekki er byggt nóg.

Íbúðaverð hefur hækkað töluvert meira en innlend hlutabréf á síðustu tíu árum, auk þess sem minna flökt hefur verið á meðalverði íbúða heldur en meðalverði hlutabréfa. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem kom út í dag.

„Þetta þýðir að íbúðir hafa verið öruggari og arðbærari fjárfesting en hlutabréf síðustu tíu ár. Það teljum við mjög óeðlilega stöðu á eignamarkaði. Með meiri áhættu ætti maður að fá meiri ávöxtun því hlutabréf eru áhættusamari en íbúðir. Þetta sýnir hvað íbúðaverð hefur hækkað hratt og flökt minna en hlutabréf síðustu tíu ár,“ segir Jónas Atli Gunnarsson hagfræðingur HMS.

Jónas spáir sömu þróun áfram.

„Íbúðaverð hefur haldið áfram að stíga umfram verðlag þannig að við erum að sjá raunverðshækkanir. Það skýrist af því að eftirspurnin er töluverð á íbúðamarkaði. Hins vegar eru verðhækkanirnar ekki eins miklar og við sáum á síðasta ári þar sem það er mjög mikið af íbúðum á sölu og sölutíminn er nokkuð langur þessa stundina,“ segir hann. 

HMS telur að til að uppfylla íbúðaþörf þurfi að byggja 4000 íbúðir árlega næstu áratugi. Samkvæmt talningu séu þær hins vegar aðeins þrjú þúsund í ár. Jónas segir því útlit fyrir að íbúðir haldi áfram að vera vænleg fjárfesting.

„ Það má gera ráð fyrir að  íbúðir verði álitlegur fjárfestingarkostur svo lengi sem íbúðaverð hækkar svona hratt umfram almenna verðþróun,“ segir Jónas Atli Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×