Fótbolti

Draumur Brassa um Ancelotti að rætast

Sindri Sverrisson skrifar
Carlo Ancelotti virðist ætla að enda magnaðan tíma með Real Madrid á tímabili án stórs titils.
Carlo Ancelotti virðist ætla að enda magnaðan tíma með Real Madrid á tímabili án stórs titils. Getty/Guillermo Martinez

Þjálfarinn sigursæli Carlo Ancelotti er á lokametrunum með Real Madrid og hefur komist að samkomulagi um að verða næsti landsliðsþjálfari Brasilíu í júní. Þar með verður hann einn hæst launaði landsliðsþjálfari heims.

Frá þessu greinir fréttamaðurinn Fabrizio Romano og segir að fulltrúar brasilíska knattspyrnusambandsins hafi undanfarið dvalið í Madrid til að ganga frá málunum.

Það hafi verið lykilatriði hjá Brössunum að Ancelotti myndi ekki bíða fram yfir HM félagsliða heldur taka við landsliðinu í júní en þá spilar Brasilía tvo leiki í undankeppni HM. Nú virðist það ætla að ganga eftir en Romano segir að engu að síður verði viðskilnaður Ancelotti við Real Madrid á góðum nótum.

Nú séu í gangi viðræður um það hvaða teymi muni starfa með Ítalanum og hjálpa honum að gera Brasilíu að heimsmeistara þegar HM fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada eftir rúmt ár.

Real Madrid þarf að hafa hraðar hendur við að finna arftaka Ancelotti en liðið spilar á HM félagsliða í Bandaríkjunum sem hefst um miðjan júní og stendur yfir fram í miðjan júlí.

Spænski miðillinn AS segir að Ancelotti fái um 11 milljónir Bandaríkjadala í árslaun hjá Brössunum. Samningur hans gildi fram yfir HM á næsta ári en sé með möguleika á framlengingu fram yfir HM 2030.

Ancelotti, sem unnið hefur Meistaradeild Evrópu fimm sinnum sem þjálfari, tekur við Brasilíu af Dorival Júnior sem var rekinn í síðasta mánuði, eftir 4-1 tapið gegn Argentínu sem var fimmta tap Brasilíu í undankeppni HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×