Fótbolti

Allt frá­gengið og Alonso fær þriggja ára samning hjá Real Madrid

Sindri Sverrisson skrifar
Xabi Alonso tekur við Real Madrid og skrifar undir samning til þriggja ára.
Xabi Alonso tekur við Real Madrid og skrifar undir samning til þriggja ára. Getty/Jörg Schüler

Xabi Alonso hættir sem þjálfari þýska liðsins Leverkusen til að snúa aftur til Madridar og taka við spænska stórveldinu Real Madrid. Ítalinn Carlo Ancelotti verður kvaddur með virktum þann 25. maí.

Þetta fullyrðir spænska blaðið Marca í dag og segir að allt sé frágengið en lengi hefur verið orðrómur í gangi um að Alonso myndi taka við Real.

Blaðið segir að nafn Ancelotti verði ritað gylltum stöfum í sögubókum fótboltans eftir stjórnartíð hans hjá Real, enda hafi liðið undir hans stjórn unnið þrjá Evrópumeistaratitla, þrjá heimsmeistaratitla, tvo Spánarmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla og fleira til. Þá sé enn möguleiki á Spánarmeistaratitli í vor.

Marca segir að Ancelotti og Real Madrid hafi samþykkt að einbeita sér alfarið að kapphlaupinu við Barcelona um spænska meistaratitilinn en að áður hafi verið ákveðið að Ancelotti myndi kveðja í góðu þann 25. maí.

Samkomulag þess efnis var frágengið eftir tap Real gegn Arsenal í Meistaradeildinni en þá munu báðir aðilar hafa verið sammála um að komið væri að endastöð. Fram að því hafi stjórnendur Real verið að kanna markaðinn en Alonso verið efstur á blaði.

Ancelotti vissi af áhuga brasilíska landsliðsins og samkvæmt Marca mun hann taka við því og leiða það á HM á næsta ári.

Alonso mun skrifa undir samning við Real sem gildir til næstu þriggja ára. Þessi 43 ára Spánverji lék með Real á árunum 2009-14 en hefur verið þjálfari Leverkusen frá árinu 2022 með afar farsælum árangri. Undir hans stjórn stöðvaði Leverkusen einokun Bayern Münhcen og varð tvöfaldur meistari í Þýskalandi í fyrra og komst í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×