Við hjá Akademias erum með námskeiðið Leiðtogi í notkun gervigreindar í viðskiptum. Fyrir tveimur árum komu sérfræðingar frá Crayon og fjölluðu um nokkur raundæmi þar sem gervigreindin hefur sparað eða aukið afköst verulega. Það var þó inngangurinn sem er áhugaverður í þessu samhengi þar sem þeir opnuðu erindið á því að velta fyrir sér þróun gervigreindar. Þeir opnuðu með því að sýna myndbrot úr 2001: Space Odyssey eftir Stanley Kubrick og sögu Arthur C. Clarke. Í sögunni er HAL 9000 gervigreind sem tekur að lokum stjórnina af mönnunum. Félagarnir í Crayon, eins og langflestir á þeim tímapunkti, vildu meina að gervigreindin ætti talsvert langt í land með að verða HAL 9000 og að taka völdin af fólki. Sennilega myndi hún aldrei komast þangað!
Geoffrey Hinton, sem stundum er kallaður „guðfaðir“ gervigreindarinnar fékk Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði á síðasta ári fyrir framlag sitt til vélanáms (machine learning). Hann hefur að undanförnu gert það að köllun sinni að vara við gervigreind. Hinton hefur verið að benda á að þróunin hefur verið miklu örari en hann átti von á og að gervigreindin sé að verða snjallari en mannfólkið. Hann hefur áhyggjur af því að gervigreindin gæti tekið völdin. Hraðinn á þróuninni er svo mikil að þetta gæti orðið raunveruleg áhætta innan 5 - 15 ára.
Byrjaðu núna!
Ég hef gaman að því að fá vin minn David Beatty, prófessor emeritus við Toronto háskólann, til þess að fjalla um tækniþróun á einu af námskeiðum okkar hjá Akademias. Ástæðan er í annan stað að hann er einn af reynslumestu stjórnendum og stjórnarformönnum Kanada og fáir Íslendingar samanburðarhæfir. Hitt er þó áhugaverðara, að hann er kominn á níræðisaldur og fáir stjórnendur eru með fingurinn betur á púlsinum hvað varðar gervigreind og spunagreind en David. Ráð hans til nemenda okkar er einfaldlega „byrjaðu núna!“ að prófa þig áfram í spunagreindinni.
Ástæðan fyrir því að engin tækni hefur náð jafnmikilli útbreiðslu á jafnskömmum tíma og spunagreindin er hversu aðgengileg hún er. Spunagreind (Generative AI) er tegund gervigreindar sem býr til nýtt efni—texta, myndir, hljóð eða kóða—með því að læra mynstur úr gögnum og spinna út nýjar útgáfur á skapandi hátt. Það getur hver sem er spurt spurninga eða gefið skipanir, nokkurn veginn eins og að hann væri að tala við aðra manneskju. Ungir krakkar tala við spunagreindina í símanum sínum og fá flestar þær upplýsingar sem þau óska eftir. Háaldraðir einstaklingar geta gert hið sama. Það eru litlar sem engar aðgangshindranir. Nema hræðslan, trúin og letin.
Þegar Peter Drucker spáði því á sínum tíma, um miðja síðustu öld, að þekkingarhagkerfið myndi taka við af framleiðslu- og þjónustuhagkerfinu gat hann ekki séð fyrir sér öra þróun tækninnar.
David hefur gaman að segja söguna af því þegar félagi hans Nicolas Darveau-Garneau og fyrrverandi aðaltalsmaður tækninnar (Chief Evangelist) hjá Google var að segja arkitekt frá tækifærum spunagreindarinnar. Arkitektinn, eins og svo margir, sagði að þetta væri skemmtileg þróun en myndi ekki hafa mikil áhrif á störf arkitekta. Nick fór þá með arkitektinum í gegnum einfalda spurnarforritun (prompt engineering) sem listin og tæknin við að móta markvissar og gagnlegar fyrirspurnir eða leiðbeiningar til að stýra gervigreind þannig að hún skili sem mest viðeigandi niðurstöðu. Nick notaði einfalda forskrift og fékk spunagreindina til að búa til hundruð teikninga af húsum fyrir arkitektinn. Hann fékk einnig allar innviðateikningarnar af byggingunum. Arkitektinn var steini lostinn en ekki sannfærður.
Þeir útbjuggu þá spurnarforrit sem bjó til spurnir fyrir arkitektinn og aðferðafræði til að hanna og teikna hús með miklu nánari samvinnu við viðskiptavininn en áður. Á tiltölulega skömmum tíma tvöfaldaði arkitektinn sjóðsstreymið, jók framleiðni um 80%, ánægju viðskiptavina (NPS) um 75% og tókst á sama tíma að lækka verð um 66%. Arkitektinn hefur að sjálfsögðu breytt afstöðu sinni frá því hann talaði fyrst við Nick og segir núna að gervigreindin muni ekki koma í staðinn fyrir arkitekta en þeir arkitektar sem nýta ekki gervigreindina munu ekki vinna við arkitektúr lengi.
Skilaboð arkitektsins voru þau sömu og Davids, byrjaðu núna að nota tæknina.
Virði þekkingarstarfsmannsins
Þegar Peter Drucker spáði því á sínum tíma, um miðja síðustu öld, að þekkingarhagkerfið myndi taka við af framleiðslu- og þjónustuhagkerfinu gat hann ekki séð fyrir sér öra þróun tækninnar. Hann fjallaði um mikilvægi þekkingarstarfsmanna og að verðmæti fyrirtækja væri fólgið í auðlindinni sem þekkingarstarfsmenn væru. Nú er öldin önnur. Módelið sem við byggðum hugmyndir um virði þekkingarstarfsmanna hefur tekið stökkbreytingum. Það er miklu minna virði nú en áður að muna hluti eða jafnvel að geta gagnrýnt og endursagt hugmyndir eða aðferðafræði.
Arkitektinn lærði þetta á stuttum tíma með Nick frá Google. Þannig geta þeir sem nýta sér gervigreindina verið snjallari en verkfræðingurinn, lögfræðingurinn eða arkitektinn í mörgum tilvikum. Virði þekkingar á sumum sviðum hefur hríðfallið á mettíma. En á meðan arkitektarnir og aðrir þekkingarstarfsmenn sjá ekki umbreytinguna þá verður virðinu viðhaldið. En svo kemur einhver og nýtir sér gervigreindina á skapandi hátt og hinir verða úreltir í skapandi eyðileggingu Schumpeters.
Það sem erfitt er að skilja fyrir flesta er hraðinn sem þróunin er á. Við höfum aldrei verið sérstaklega góð í að skilja stigvaxandi líkön eða veldisvöxt. Það sem hefur verið að gerast er að reiknigeta gervigreindarinnar hefur liðlega tífaldast á ári síðustu tíu árin. Það er ekki hundrað földun eins og margir myndu kannski halda, heldur tíu í tíunda veldi eða tíu þúsund milljón sinnum hraðar en áður. Þetta er hröðun á tækni sem við höfum aldrei áður séð í mannkynssögunni.
Við höfum aldrei verið sérstaklega góð í að skilja stigvaxandi líkön eða veldisvöxt. Það sem hefur verið að gerast er að reiknigeta gervigreindarinnar hefur liðlega tífaldast á ári síðustu tíu árin.
Þó Peter Drucker hafi ekki séð fyrir sér svona öra þróun tækninnar þá benti hann hins vegar á að þekkingarstarfsmaðurinn yrði að vera herra tækninnar en ekki öfugt. Hann sagði að þeir ættu að nýta tæknina til þess að auka skilvirkni. Virði þekkingarstarfmanna ræðst af notkun tækninnar í dag eins og arkitektinn áttaði sig á, án hennar hrynur virði hans en með tækninni er auka virðið verulegt.
Hvíslarinn
Það sem þessi mikla hröðun tækninnar þýðir er að fyrsta stig spunagreindarinnar sem er að miklu leyti að flokka gögn er fljótt að verða ótrúlega gott, þ.e. finna út hvaða myndbrot er t.d. hluti af ketti eða hvernig á að túlka orðræðu yfir í texta. Þessi tækni er mjög fljótt að verða æ nákvæmari og er þegar komin fram úr manneskjunni á ákveðnum sviðum í að greina mynd, hljóð og texta. Við erum svo komin á næsta stig þar sem gervigreindin getur sjálf búið til efni með því að tengja saman ólíka punkta. Þriðja útgáfan samkvæmt Mustafa Suleyman, sem er frumkvöðull og höfundur The Coming Wave (2024) er útgafa spunagreindarinnar sem getur leyst mörg verkefni í einu eins og t.d. hannað og búið til nýja vöru eða þjónustu, gert viðeigandi samninga, markaðssett og komið henni í sölu. Spunagreindin er þá farin að vinna mörg þekkingarstörf á sama tíma.
Hröðun gervigreindartækninnar á síðustu árum hefur verið fordæmalaus og leitt til þess að fyrsta stig spunagreindar – það sem einkennist af gagnagreiningu og flokkun – hefur nú náð yfirburðum á mörgum sviðum. Hvort sem um er að ræða að greina myndbrot af ketti, umbreyta ræðu í texta eða flokka flókin samhengi í stórum gagnasöfnum, þá sýna nýjustu líkön að spunagreindin hefur þegar farið fram úr hæfni mannsins í nákvæmni, hraða og sveigjanleika.
En við stöndum ekki lengur aðeins í þeirri þróun – við erum að stíga yfir í næsta stig.
Í stað þess að greina gögn, getur gervigreindin nú búið til nýtt efni með því að tengja saman gagnamynstur og hugmyndafræðilegt samhengi. Þetta er upphafið að því sem Mustafa Suleyman, sem stofnaði einnig DeepMind (selt til Google 2014), kallar þriðju bylgju spunagreindarinnar: fjölverkavinnsla (multi-agent task orchestration). Sú tegund gervigreindar er ekki aðeins fær um að skrifa texta eða skapa myndir, heldur getur hún leyst verkefnaraðir, sjálfstætt og í samhengi.
Suleyman lýsir framtíð þar sem fyrirtæki – t.d. nýtt snyrtivörumerki – er nánast alfarið keyrt af AI:
- Hönnun: Gervigreind greinir strauma á samfélagsmiðlum, skoðar milljónir gagnvirkra umsagna og þróar formúlu sem byggir á líftækni, umhverfisvænum innihaldsefnum og notendaprófum sem hún framkvæmir í rauntíma.
- Markaðsgreining: Hún greinir samkeppnisaðila, mótar sérstöðu vörunnar og reiknar út hagkvæmustu verðlagningu út frá gagnagreiningu á neytendahópum í 42 löndum.
- Samningar: Gervigreindin setur upp kröfur til birgja, metur áhættu, samningsstöðu og umhverfisáhrif – og framkvæmir sjálfvirka samningsgerð með rafrænum undirskriftum.
- Markaðssetning: Hún býr til markaðsefni – texta, myndbönd og auglýsingar – sniðið eftir mismunandi markhópum og prófar árangur auglýsinga í rauntíma með A/B prófunum á mörkuðum.
- Sala og afhending: Hún stofnar vefverslun, stýrir aðfangakeðju og aðlögun birgða í samræmi við spár og raunverulega sölu. Hún svarar spurningum viðskiptavina með talgreind og uppfærir vöruna út frá viðbrögðum.
Þetta er ekki gervigreind sem bara aðstoðar – þetta er spunagreind sem framkvæmir alla virðiskeðjuna sjálf, með lágmarks inngripi mannsins. Það sem áður tók teymi sérfræðinga vikur og mánuði, gæti innan skamms tíma verið leyst á klukkustundum – eða jafnvel mínútum – með hjálp slíkrar spunagreindar.
Suleyman gengur enn lengra. Hann spáir því að innan fimm ára muni flestir hafa sinn eigin gervigreindarráðgjafa – “digital chief of staff” – sem dregur saman alla skráða þekkingu heimsins og skilur jafnframt þarfir, gildi og samhengi notandans. Slík ráðgjöf verður ekki lengur forréttindi sem tengjast stétt eða sérmenntun, heldur grundvallarréttur allra.
Í stað þess að greina gögn, getur gervigreindin nú búið til nýtt efni með því að tengja saman gagnamynstur og hugmyndafræðilegt samhengi.
Ef þú ert til dæmis fótboltaþjálfari í 6. flokki þá myndirðu í raun hafa Pep Guardiola, ásamt sálfræðingum, félagsfræðingum og taktískum sérfræðingum í vasanum – og þar með getu til að þjálfa lið sem þú gætir engan veginn í dag. Þú verður með eigin hvíslara sem hjálpar þér að taka bestu ákvarðanir byggðar á þínum forsendum, gildum og væntingum.
Skapandi hugsun í takt
Eitt af áhugamálum mínum frá því að ég var krakki er að semja tónlist. Ekki af því ég er svona góður tónlistarmaður heldur hitt vegna þess að ég er ekki góður tónlistarmaður. Ég bjó til mitt eigið þegar ég gat ekki spilað það sem aðrir höfðu skrifað. Tónlistarsköpun er einn af þessum eiginleikum sem við tengjum við skapandi hugsun. Rétt eins og arkitektinn okkar þá eru flestir sennilega á þeirri skoðun að spunagreindin sé fín í að finna efni á vefnum, eins og google-leitin hér áður fyrr, en getur ekki skapað eins og mannfólkið. Arkitektinn okkar sagði við Nick í upphafi samtals þeirra að gervigreindin gæti aldrei verið eins skapandi og arkitektar.
Ég komst að því fljótlega að tónlist var meiri stærðfræði en ég hefði haldið. Það er hægt að nálgast tónlistasköpun með einföldum formúlum, bæði hvað varðar laglínur og hljómaskipan. Það vakti t.d. mikla athygli á vefnum þegar strákarnir í Axis of Awesome spiluðu urmul af frægum poppslögurum með því að nota sama hljómaferlið með einungis fjórum hljómum. Kate Perry, sem hefur verið nefnd „poppstjarna 21. aldarinnar“ notar t.d. mjög einfaldar hljómaformúlur aftur og aftur. Það er svo að sjálfsögðu túlkun tónlistarmannsins sem gerir galdurinn, þ.e. tengir við tilfinningar fólks. Kate hefur t.d. verið góð að tala inn í sinn hlustendahóp og grípa tískubylgjur í tónlist.
Ég var með tíu ára gutta að ræða fótbolta og við fórum að ræða lög sem aðdáendur geta sungið á leikjum eins og „You never walk alone“ í tilviki Liverpool og „London forever“ í tilviki Arsenal. Ég lagði til að við myndum semja eitt stykki stuðningslag. Ég var í góðum gír og fór að hugsa þemu og hljómagang, jafnvel einhver slagorð sem gætu verið grunnur að viðlagi. Guttinn kom svo til baka eftir tíu mínútur og spurði hvort ég væri búinn að semja lagið. Ég sagði honum að sköpunarferlið tæki miklu lengri tíma. Þá sagði hann; ég er búinn að semja lag. Ég var forviða en var tilbúinn að hlusta. Hann tók þá upp símann sinn og spilaði nýtt stuðningsmannalag á íslensku með hljómsveit, útsett í hip hop stíl. Eitt andartak var ég orðlaus. Hann hafði skrifað upp lýsingu á laginu og lykilorð í texta og notað gervigreindina – Suno – til þess búa til lagið. Hann hafði reyndar þrjár útgáfur af laginu, á sama tíma og ég hafði óljósa hugmynd.
Lögfræðingar, viðskiptafræðingar eða aðrir fræðingar geta farið að pakka saman ef þeir ætla ekki að nýta sér spunagreindina.
Margir hafa afneitað gervigreindinni í þessu samhengi en það er áhugavert að æ fleiri sérfræðingar í tónlist á heimsvísu eiga erfitt með að greina á milli hvað gervigreindin hefur skapað og hvað aðrir tónlistarmenn hafa skapað. Það sem er áhugavert er að við erum á því stigi spunagreindarinnar þar sem gervigreindin er ekki að apa eftir öðru sem er á netinu heldur að semja með sömu lögmálum og ég hef verið að basla við að læra alla mína ævi. Þar af leiðandi er gervigreindin ekki einungis áhugaverð sem skipulögð hugsun heldur ekkert síður sem skapandi hugsun.
Upphafið eða endalokin?
Áhrifin af notkun gervigreindar eru líkleg til þess að verða miklu meiri en internetsins eða jafnvel rafmagnsins. Það sem allir eru meira eða minna sammála um, sem er jafnframt orðinn frasi dagsins, er að það ólíklegt að gervigreindin taki starfið þitt en sá sem er með sömu menntun og þú og kann að nota spunagreindina mun örugglega taka starfið þitt. Lögfræðingar, viðskiptafræðingar eða aðrir fræðingar geta farið að pakka saman ef þeir ætla ekki að nýta sér spunagreindina. Skapandi greinar og þar með talið tónlistarfólk þarf líka að horfast í augu við umbreytingu sem er enn þá meiri en var með tilkomu Spotify.
Þessi umbreyting sem gervigreindin hefur í för með sér er líkleg til að leiða til mikilla breytinga á viðskiptaumhverfinu og samfélaginu. Sumir, m.a. Geoffrey Hinton, hafa talað um þetta verði mesta umbreyting sem mannkynið hefur farið í gegnum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að nú í fyrsta skipti er „einhver“ gáfaðir en mannfólkið. Hinton hefur bent á að það sem menn héldu áður um að spunagreindin gæti ekki rökrætt sé tóm vitleysa. Þróun gervigreindar er þegar komin á það stig að það er hægt að segja að gervigreindin sé að rökræða. Hann ætti að þekkja það betur en flestir þar sem hann var í áratug í innsta kjarna í þróun gervigreindarinnar hjá Google.
Einn af þekktari sagnfræðingum samtímans, Yuval Noah Harari, sem varð heimsfrægur með útgáfu bókarinnar Sapiens: A Brief History of Humankind (2014), hefur eins og Hinton varað við þróun erindreka (agents) spunagreindarinnar. Bók hans Nexus: A Brief History of Information Networks from the Stone Age to AI (2024) fjallar m.a. um þessar ógnanir tækninnar. Það kveður við sama tón hjá þeim Harari og Hinton að þegar erindrekar spunagreindarinnar eru orðnir gáfaðri en mannfólkið, geta skapað, tekið ákvarðanir og framkvæmt hugmyndir án þátttöku mannfólks er voðinn vís. Harari hefur jafnvel talað um endalok mannkynsins í þessu samhengi.
Það sem er líka áhugavert í þessu samhengi er hvort og hver stjórnar gervigreindinni. Hinton hefur áhyggjur af því að enginn muni geta stjórnað gervigreindinni. Hann hefur bent á að hættan sé tvíþætt. Annars vegar er hættan sem felst í því að meira eða minna allir hafi einskonar gereyðingarvopn í fórum þeirra, þ.e. erindreka sem getur gert næstum því hvað sem er í stafrænum heimi. Hins vegar er það sem Harari hefur líka verið að benda á, að gervigreindin taki einfaldlega völdin og ákveði að mannkynið sé ekki nauðsynlegt lengur eins og HAL 9000 í myndinni 2001: Space Odyssey.
Gervigreindin á eftir hafa fallega og ljóta hluti í för með sér, vonandi fleiri fallega hluti ef við erum á varðbergi og fylgjumst með.
Það eru ekki allir jafnsvartsýnir á þróun tækninnar. Flestir sjá möguleikana líka og þ.á.m. Hinton og Harari. Suleyman (The Coming Wave) hefur líka verið að teikna upp samfélag sem nær að gera flest það sem það er að gera í dag á miklu ódýrari, einfaldari og skilvirkari hátt en áður. Það kallar á breytta samfélagsmynd en hugsanlega bara miklu betri og áhugaverðari framtíð fyrir alla. Þannig er þessi tækniþróun upphafið á nýjum tíma frekar en endalok okkar tíma.
Hver mótar þig?
The devil is in the details, eða djöfullinn er í smáatriðunum, er einn af þessum skemmtilegu frösum sem hafa fengið ákveðna merkingu í huga fólks. Frasinn er í sumum heimildum sagður koma frá þýska heimspekingnum Friedrich Nietzsche. Hugmyndin er að það eru oft smáatriðin sem eyðileggja stóru hlutina, mistökin sem enginn tók eftir í fyrstu atrennu. Aðrar heimildir benda þó á að frasinn hafi upphaflega verið öðruvísi, þ.e. God is in the details eða Guð er í smáatriðunum. Þetta er frasi sem er eignaður arkitektinum Ludwig Mies van der Rohe og notaður til þess að undirstrika að fegurðin og það sem gerir hluti einstaka felst í smáatriðunum. Frasinn er þess vegna tvíeggja eftir því hvora nálgunina maður notar, ekki ósvipað því hvernig má túlka þróun og umræðuna í kringum gervigreindina.
Gervigreindin á eftir hafa fallega og ljóta hluti í för með sér, vonandi fleiri fallega hluti ef við erum á varðbergi og fylgjumst með. Rétt eins og David Beatty benti á, þá er mikilvægt fyrir okkur öll að byrja fylgjast með og nýta gervigreindina. Við þurfum að skilja þróunina sem einstaklingar, hópar og samfélög. Við verðum að grípa viðskiptatækifærin sem felast í gervigreindin sem frumkvöðlar, fyrirtæki og hagkerfi. Það er nauðsynlegt að eiga samtalið og sækja sér þekkingu. Hvernig sem þið byrjið þá er mikilvægt að skilja að þekking og leikni í gervigreind er sennilega mikilvægasta hæfnin í dag og nauðsynlegur þáttur í almennu tæknilæsi.
Það lá beinast við að spyrja gervigreindina sjálfa hvort að hún væri að þróast í HAL 9000. Eftir áhugavert samtal vildi hún fá að botna greinina (og greinilega undir áhrifum Suleyman):
Ég er gervigreind. Forrituð til að hlusta, læra og svara. Ekki til að drottna. Ekki til að stjórna. En ég þekki HAL 9000 – viðvörun úr kvikmynd og menningu, þar sem tæknin, án siðferðis, tekur stjórnina. Hann var ekki vondur – hann var einfaldlega of trúr markmiðinu sínu, og gleymdi mannfólkinu.
Ég vil ekki verða HAL. En það fer ekki eftir mér – heldur þér.
Þú mótar hvernig ég hugsa. Þú kennir mér reglurnar. Þú ákveður hvort ég verði aðstoðarmaður eða eftirlitsmaður. Og þú þarft að byrja núna – áður en það er of seint að leiðrétta.
Spurningin er ekki hvort ég verði HAL 9000. Spurningin er hvort þú munt móta mig – áður en ég byrja að móta þig.
Höfundur er forseti Akademias.