Körfubolti

Vonast til að Giannis standist freistinguna og klári ferilinn hjá Milwaukee

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo og félagar í Milwaukee Bucks féllu úr leik fyrir Indiana Pacers, 4-1, í 1. umferð úrslitakeppninnar.
Giannis Antetokounmpo og félagar í Milwaukee Bucks féllu úr leik fyrir Indiana Pacers, 4-1, í 1. umferð úrslitakeppninnar. getty/Justin Casterline

Gamla körfuboltagoðið Charles Barkley vill að Giannis Antetokounmpo haldi kyrru fyrir hjá Milwaukee Bucks og klári ferilinn hjá félaginu í stað þess að eltast við meistaratitla annars staðar.

Giannis hefur leikið með Milwaukee allan sinn feril í NBA og varð meistari með liðinu 2021. Síðustu ár hefur ekki gengið jafn vel hjá liðinu og það féll úr leik fyrir Indiana Pacers, 4-1, í 1. umferð úrslitakeppninnar á þessu tímabili.

Í kjölfarið hefur mikið verið rætt og ritað um framtíð Giannis og hvort hann ætli að halda tryggð við Milwaukee eða róa á önnur og mögulega fengsælli mið. Barkley vill að hann ljúki ferlinum hjá Milwaukee.

„Ég verð pirraður á fólki í sjónvarpi. Það segir að það sé kominn tími fyrir Giannis að yfirgefa Milwaukee. Bíddu, þau sögðu þetta aldrei um mig eða Patrick Ewing. Allt í einu þurfa leikmenn að vinna titil í dag,“ sagði Barkley í Inside the NBA á TNT.

„Þegar ég var í Philly man ég ekki eftir gaurum segja: Þið eruð að sóa bestu árum Charles Barkley. Ég held áfram að spila því það er starfið mitt. Ég vildi vera hjá Philly allan ferilinn. Reggie Miller, ég dáist að honum. Dirk Nowitzki, ég dáist að honum. Þetta viðhorf um frábæra leikmenn, hvort sem þeir hafa unnið titil eða þeir eru ekki að vinna, að þeir verði að fara. Hann þarf ekki að fara. Ég myndi vilja sjá hann verja öllum ferlinum í Milwaukee. Þeir hafa unnið titil og ég vona að þeir vinni aftur hans vegna en ég hata þessa skoðun að hann verði að fara ef þeir vinna ekki.“

Giannis er leikja-, stiga-, frákasta- og stoðsendingahæsti leikmaður í sögu Milwaukee. Hann var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígisins 2021 þar sem Milwaukee sigraði Phoenix Suns, 4-2.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×