Íslenski boltinn

„Við erum með fókus á þessu og æfum þetta al­veg nokkuð stíft“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jökull verður væntanlega með hornspyrnur á heilanum fram að næsta leik. 
Jökull verður væntanlega með hornspyrnur á heilanum fram að næsta leik.  Vísir/Diego

Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, er meðvitaður um varnarvandræði liðsins í hornspyrnum en er að vinna í vandamálinu. Hann var ánægður með karakter sinna manna, sem stigu upp í seinni hálfleik eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik. 2-2 jafntefli varð lokaniðurstaðan þegar Víkingar komu í heimsókn.

„Mér fannst við slakir í fyrri en náðum að laga það. Ef við getum tekið þennan seinni hálfleik eitthvað áfram þá verð ég ánægður“ sagði Jökull fljótlega eftir leik.

Bæði mörk Víkings og fjöldi fleiri færa kom upp úr hornspyrnum. Stjarnan bjargaði líka á línu og Víkingar skutu í stöngina. Jökull var því spurður hvers vegna liðið ætti svona erfitt með að verjast hornspyrnum.

„Þeir eru sterkir þar og það verður oft alls konar klafs í kringum það. Þeir eru bara öflugir í því og við þurfum eitthvað að skoða hvernig við verjumst þeim en ég er svosem ekki með betra svar akkúrat núna.“

Hefur þetta ekki verið vandamál hjá ykkur?

„Við erum aðeins búnir að ströggla núna en vorum orðnir helvíti sterkir seinni hlutann í fyrra, fengum ekki á okkur mark eftir horn hálft mótið. Við höfum ekki náð að fylgja því alveg eftir. Þannig að við erum með fókus á þessu og æfum þetta alveg nokkuð stíft. En við skoðum þetta bara eins og eftir alla leiki.“

Mikill munur var á frammistöðu Stjörnunnar í fyrri og seinni hálfleik. Sá seinni mun betri, sem Jökull skrifar á hreyfanleika og hugrekki.

„Við vorum bara hreyfanlegri og hugrakkari, fyrst og fremst. Mér fannst það aðalatriðið. Þannig náðum við að taka aðeins yfir leikinn. [Hugrekkið] vantaði aðeins í fyrri hálfleik… en þessi seinni hálfleikur var helvíti góður og ég vil sjá meira af þessu.“

Guðmundur Kristjánsson var tekinn af velli eftir klukkutíma leik og sást haltrandi eftir á. Jóhann Árni Gunnarsson kom inn á í sömu þreföldu skiptingunni og spilaði sinn fyrsta deildarleik í sumar.

„Gummi er búinn að vera aðeins stífur og við erum að reyna að passa upp á hann. Að öðru leiti er staðan á hópnum frábær, nánast ekkert um meiðsli. Stór og öflugur hópur“ sagði Jökull að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×