Körfubolti

Tryllt eftir­spurn eftir miðum

Sindri Sverrisson skrifar
Það var allt pakkað í Umhyggjuhöllinni á sunnudaginn þegar Stjarnan jafnaði einvígið.
Það var allt pakkað í Umhyggjuhöllinni á sunnudaginn þegar Stjarnan jafnaði einvígið. vísir/Diego

Það er ljóst að margfalt færri komast að en vilja, á oddaleik Tindastóls og Stjörnunnar í úrslitaeinvígi Bónus-deildar karla í körfubolta annað kvöld.

Félögin sjá sjálf um að útdeila sínum miðum og hafa Stjörnumenn, sem boðað höfðu opna miðasölu á Dúllubar síðdegis í dag, þegar útdeilt öllum sínum miðum. Samkvæmt reglum fær Stjarnan 30 prósent af þeim miðum sem í boði eru en ljóst er að mun fleiri Garðbæingar hefðu viljað fara norður.

Stjarnan hefur þó ákveðið að bregðast við áhuganum og er stefnan að sýna beina útsendingu Stöð 2 Sport á félagssvæðinu í Garðabæ, á Dúllubar annað kvöld, ásamt úrslitaleik Evrópudeildarinnar á milli Manchester United og Tottenham sem hefst klukkan 19, klukkutíma fyrir upphaf oddaleiksins.

„Miðaeftirspurn hefur náð nýjum hæðum!“ segja Tindastólsmenn og þarf þá heilmikið til eftir ævintýralegan áhuga á leikjum þeirra á undanförnum árum, ekki síst þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn fyrir tveimur árum.

Stólarnir selja sína miða í kvöld, eftir að hafa útdeilt miðum til árskortahafa og iðkenda. Í færslu félagsins segir að eftirspurn sé margfalt meiri en framboð en hægt verður að kaupa miða í sjoppunni í íþróttahúsinu í kvöld klukkan 19, og verða aðeins tveir miðar í boði á mann svo búast má við langri röð fólks.

Oddaleikur Tindastóls og Stjörnunnar hefst klukkan 20 annað kvöld. Bein útsending á Stöð 2 Sport hefst klukkutíma fyrr, eða klukkan 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×