Enski boltinn

Guardiola hótar að hætta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola vill ekki hafa úr of mörgum leikmönnum að velja.
Pep Guardiola vill ekki hafa úr of mörgum leikmönnum að velja. getty/Lee Parker

Pep Guardiola hótar að hætta sem knattspyrnustjóri Manchester City nema fækkað verði í leikmannahópi liðsins.

Nokkrir af leikmönnum City voru ekki valdir í hóp liðsins í leiknum gegn Bournemouth í gær, þar á meðal Rico Lewis og Savinho. 

Guardiola er ósáttur með að þurfa að skilja leikmenn eftir uppi í stúku og vill vinna með minni leikmannahóp á næsta tímabili. Annars muni hann segja upp.

„Ég sagði við félagið að ég vildi ekki stærri hóp. Ég vil ekki skilja 5-6 leikmenn eftir í frystinum. Ég vil það ekki. Ég mun hætta. Hafið hópinn minni og þá mun ég halda áfram,“ sagði Guardiola eftir leikinn gegn Bournemouth sem City vann, 3-1.

„Það er ómögulegt fyrir mig að segja leikmönnunum mínum að þeir geti ekki spilað.“

Mikil meiðsli herjuðu á leikmannahóp City á kafla í vetur en eftir að liðið endurheimti flesta sína leikmenn er samkeppnin um sæti í liðinu og að komast í hóp á leikdag orðin ansi hörð.

„Í 3-4 mánuði gátum við ekki valið ellefu leikmenn. Við vorum ekki með varnarmenn svo það var erfitt. Eftir það sneru leikmenn aftur en þetta getur ekki verið svona á næsta tímabili,“ sagði Guardiola.

„Ég sem þjálfari get ekki þjálfað 24 leikmenn og í hvert sinn sem ég þarf að velja verða nokkrir að vera eftir heima í Manchester því þeir geta ekki spilað. Þetta gerist ekki. Ég tjáði félaginu að ég vilji þetta ekki.“

Kevin De Bruyne lék sinn síðasta heimaleik fyrir City í gær en hann er eini leikmaðurinn sem ljóst er að yfirgefur félagið í sumar.

City keypti fjóra leikmenn í janúar auk þess sem Claudio Echeverri sneri aftur eftir lánsdvöl hjá River Plate í Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×