Innlent

Tæp tvö þúsund ný leik­skóla­pláss í Reykja­vík á næstu fimm árum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Börn að leik í leikskóla í Reykjavík.
Börn að leik í leikskóla í Reykjavík. Reykjavík/Róbert Reynisson

Á næstu fimm árum verða til 1.987 ný leikskólapláss, sem dreifast á hverfi borgarinnar,  samkvæmt tillögum sem borgarráð samþykkti í dag. Flest leikskólapláss bætast við í Háaleitis- og Bústaðahverfi, 521 talsins, og næstflest í Vesturbæ, 418 talsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en tillögurnar koma fram í skýrslu spretthóps borgarstjóra um leikskólauppbyggingu

Spretthópurinn var skipaður í kjölfar samþykktar borgarráðs 20. mars síðastliðinn og skipaður borgarfulltrúunum Dóru Björt Guðjónsdóttir, Helgu Þórðardóttur, Sönnu Magdalenu Mörtudóttur og Skúla Helgasyni, sem var formaður hópsins.

Spretthópnum var falið að yfirfara aðgerðaáætlun stýrihópsins Brúum bilið, sem felur í sér markvissa uppbyggingu leikskólarýma í borginni til að bjóða börnum frá tólf mánaða aldri í leikskóla borgarinnar, og koma með tillögur að nýjum verkefnum með áherslu á framkvæmdir sem ljúka mætti á næstu tveimur árum.

Flest leikskólapláss bætast við í Háaleitis- og Bústaðahverfi en fæst bætast við í Grafarholti.

Nýir leikskólar og ný húsnæði

Hópurinn skilaði skýrslu þar sem lögð eru til níu uppbyggingarverkefni sem gætu tryggt um 900 ný leikskólapláss. Borgarráð samþykkti tillöguna og vísaði til umræðu í borgarstjórn.

Verkefnin níu sem um ræðir eru eftirfarandi: 

  • Nýr borgarrekinn leikskóli við Rafstöðvarveg. 
  • Nýr leikskóli Félagsstofnunar stúdenta við Þorragötu.
  • Nýr leikskóli Hjallastefnu við Nauthólsveg. 
  • Nýtt húsnæði borgarrekna leikskólans Laugasólar í Laugardal. 
  • Nýr borgarrekinn Miðborgarleikskóli. 
  • Nýtt húsnæði borgarrekna leikskólans Ægisborgar. 
  • Nýr borgarrekinn leikskóli í Safamýri. 
  • Nýtt húsnæði borgarrekna leikskólans Sunnuáss í Laugardal.
  • Mögulegur leikskóli á Loftleiðareit við Hlíðarenda.

Þar við bætast um 164 ný pláss með stækkunum starfandi leikskóla borgarinnar með færanlegum húsum. Síðan bætast við stofnstyrkir til að hvetja til fjölgunar plássa á sjálfstætt starfandi leikskólum, auka á samnýtingu skóla- og frístundahúsnæðis innan hverfa í þágu leikskólastarfsemi. Loks birtist í skýrslunni yfirlit yfir verkefni sem þegar hafa verið samþykkt og sett í farveg á vegum stýrihópsins Brúum bilið. 

Alls er um að ræða 1.987 ný leikskólapláss sem dreifast á hverfi borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×