Enski boltinn

Fyrr­verandi leik­maður Man. Utd hlaut fjór­tán mánaða dóm

Sindri Sverrisson skrifar
Brandon Williams yfirgaf Manchester United þegar samningur hans við félagið rann út síðasta sumar.
Brandon Williams yfirgaf Manchester United þegar samningur hans við félagið rann út síðasta sumar. Getty/Marco Steinbrenner

Brandon Williams hefur nú hlotið fjórtán mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir glæfraakstur sinn í ágúst 2023, þegar hann var leikmaður Manchester United.

Williams, sem er 24 ára, sást aka Audi A3 bifreið sinni með háskalegum hætti í nágrenni Manchester-borgar og mun hafa verið með blöðru í munnvikinu til að neyta gass. Hann keyrði svo utan í Ford Fiesta bíl, út fyrir veginn og klessti bílinn sinn.

Dómara þótti sannað að Williams, sem var með konu sem farþega í bílnum, hefði ekið glæfralega enda var hann á 159 km/klst hraða þar sem hámarkshraði var um 112 km/klst.

Williams játaði sök og hlaut eins og fyrr segir fjórtán mánaða dóm auk þess að vera sviptur ökuréttindum næstu þrjú árin og þurfa að sinna samfélagsþjónustu í 180 klukkustundir. Hann sleppur þó við að sitja inn ef hann heldur skilorð næstu tvö árin.

Williams yfirgaf Manchester United í júní í fyrra þegar samningur hans við félagið rann út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×