Enski boltinn

Allt klárt fyrir fyrstu kaup Man. Utd í sumar

Sindri Sverrisson skrifar
Matheus Cunha virðist hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Úlfana.
Matheus Cunha virðist hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Úlfana. Getty/Cameron Smith

Manchester United hefur náð munnlegu samkomulagi við Wolves og Matheus Cunha um að þessi brasilíski sóknarmaður verði leikmaður United næstu fimm árin.

Vistaskipti Cunha hafa legið í loftinu en nú segir félagaskiptafréttamaðurinn Fabrizio Romano að allt sé klappað og klárt.

Cunha muni skrifa undir samning sem gildi til fimm ára, með möguleika á árs framlengingu, og að United muni greiða Wolves samtals 62,5 milljónir punda, eða 10,7 milljarða króna, í greiðslum sem nú sé verið að ganga frá hvernig skipta eigi upp.

United og Wolves enduðu með jafnmörg stig í ensku úrvalsdeildinni, á leiktíðinni sem var að ljúka, í 15. og 16. sæti. Cunha fór á kostum fyrir Úlfana og var þeirra markahæsti maður með fimmtán mörk, í 9. sæti yfir markahæstu menn deildarinnar.

Þrátt fyrir að United hafi aðeins unnið 17 af 48 leikjum sínum, eftir að Ruben Amorim tók við stjórn liðsins, bendir allt til þess að Portúgalinn verði áfram við stjórnvölinn og að Cunha verið fyrsti nýi leikmaðurinn sem hann fær í sumar.

Blaðamaðurinn Ben Jacobs segir gangi allt eftir muni Cunha klæðast treyju númer 10 og taka þannig við af Marcus Rashford.

Hinn 25 ára gamli Cunha hefur leikið með Wolves frá ársbyrjun 2023 eftir að hafa áður verið hjá Atlético Madrid, Herthu Berlín, RB Leipzig og Sion í Sviss en þangað kom hann 18 ára gamall frá Coritiba í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×