Enski boltinn

Stuðnings­menn Chelsea köstuðu glösum og stólum í Pól­landi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Chelsea og Real Betis eru fjölmennir í Wroclaw.
Stuðningsmenn Chelsea og Real Betis eru fjölmennir í Wroclaw. Vísir/Getty

Úrslitaleikur Sambandsdeildarinnar fer fram í Wroclaw í Póllandi annað kvöld þar sem Chelsea og Real Betis eigast við. Stuðningsmönnum liðanna lenti saman í gær þar sem glös og húsgögn flugu manna á milli.

Úrslitaleikur Sambandsdeildar Evrópu fer fram í Póllandi annað kvöld. Chelsea og Real Betis mætast þá í Wroclaw en leikurinn verður í beinni útsendingu á Vodafone Sport klukkan 18:45.

Leikvangurinn í Wroclaw tekur rúmlega 40.000 áhorfendur í sæti og voru stuðningsmenn Chelsea og Real Betis byrjaðir að fjölmenna til borgarinnar í dag. Talið er að allt að 70.000 stuðningsmenn Chelsea séu mættir til Póllands, mun fleiri en nokkurn tíman munu hafa möguleika á að fá miða á sjálfan leikinn.

Líkt og svo oft áður þegar ensk lið eiga í hlut var töluvert um ólæti. Spænsku og ensku stuðningsmönnunum lenti saman í miðborginni og á samfélagsmiðlum mátti sjá myndbönd þar sem glösum og stólum er kastað.

Lögreglan þurfti að beita táragasi til að skilja fólk að og mun nota öryggismyndavélar við rannsókn málsins til að greina um hvaða einstaklinga er að ræða.

Annars vakti það einna helst athygli að Úkraínumaðurinn Mykhailo Mudryk var óvænt mættur til Wroclaw. Mudryk hefur ekkert leikið með Chelsea á þessu ári eftir að hafa fallið á lyfjaprófi á síðasta ári.

Mudryk var mættur í stemmninguna í Wroclaw, klæddur í Chelsea fatnað og stillti sér upp á myndum með stuðningsmönnum. Að sögn stuðningsmannanna sagðist Mudryk vera „mættur til að sækja verðlaunapening.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×