Upp­gjörið: ÍBV - Víkingur 0-0 | Hund­leiðin­legt í Eyjum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sverrir Páll Hjaltested átti skot í slá í fyrri hálfleik.
Sverrir Páll Hjaltested átti skot í slá í fyrri hálfleik. Vísir/Diego

ÍBV og Víkingur gerðu markalaust jafntefli í steindauðum fótboltaleik á Hásteinsvelli í 14. umferð Bestu deildar karla í fótbolta síðdegis.

Um var að ræða fyrsta leik ÍBV á spánýju gervigrasi á Hásteinsvelli eftir töluverða bið þeirra eftir gúmmíkurli í völlinn. Ágætlega hefur fengið á Þórsvelli hingað til í sumar en einhverjri

Víkingar höfðu tök á því að nýta sér misstig Breiðabliks í Mosfellsbæ á fimmtudagskvöldið var og með sigri myndu þeir auka forskot sitt á toppi deildarinnar í fimm stig.

Töluverður strekkingur var í Eyjum og höfðu Víkingar vindinn í bakið í fyrri hálfleik en það var ekki að sjá. Þeir sköpuðu sér gott sem ekkert og Eyjamenn ívið hættulegri aðilinn þegar þeir komust í skyndisóknir. Sverrir Páll Hjaltested átti skot í slá um miðjan fyrri hálfleik eftir eina slíka.

Daníel Hafsteinsson átti einnig skot í markrammann undir lok hálfleiksins eftir hornspyrnu Víkinga en staðan í hálfleik markalaus.

Milan Tomic átti besta færi síðari hálfleiksins, þegar Felix Örn Friðriksson átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri, beint á pönnuna á Serbanum en Pálmi Rafn Arinbjörnsson, sem varði mark Víkinga í fjarveru Ingvars Jónssonar, varði vel.

Víkingar ógnuðu aðeins undir lokin og Arnór Ingi Kristinsson bjargaði á línu þegar sending Ali Basem fór af varnarmanni í átt að marki á 86. mínútu. Það virtist hins vegar ljóst frá upphafi að við fengjum ekki mark í þennan blessaða leik.

Víkingar rúmlega 70 prósent með boltann en höfðu aðeins tvær marktilraunir á markið upp úr því. Frammistaðan lofar ekki góðu fyrir komandi Evrópuverkefni í vikunni en þeim til varnar var vindurinn mönnum til ama í dag.

Markalaust jafntefli niðurstaðan og Víkingur með 30 stig á toppi deildarinnar eftir 14 leiki, þremur á undan Breiðabliki. ÍBV með 15 stig og fer upp fyrir FH í 9. sæti deildarinnar, þremur stigum frá ÍA og KA sem verma fallsætin tvö.

Atvik leiksins

Það segir sitt um skemmtanagildið að truflun hunds snemma leiks sé það markverðasta úr þessum leik.

Stjörnur og skúrkar

Það verður að játast að ég stend á gati. Það er satt best að segja erfitt að taka til staka leikmenn sem stóðu upp úr eða þá til að setja út á. Þetta var bara hundleiðinlegur og rislítill leikur.

Stemning og umgjörð

Það er goslokahátíð í Eyjum og stemningin góð eftir því. Víkingar fjölmenntu og létu vel í sér heyra, sungu hvað mest til uppalda Víkingsins Sverris Páls Hjaltested.

Dómarar

Jóhann Ingi með allt í teskeið í dag í kröfulitlum leik fyrir dómaratríóið. Einn skrýtinn aukaspyrnudómur en það er ekkert til að tala um.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira