Fótbolti

Heimir og Lagerbäck sam­einaðir á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson komu saman íslenska landsliðinu í átta liða úrslit á EM í Frakklandi 2016.
Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson komu saman íslenska landsliðinu í átta liða úrslit á EM í Frakklandi 2016. Getty/Alex Grimm

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson gerðu sögulega hluti saman þegar þeir stýrðu íslenska karlalandsliðinu í fótbolta inn í átta liða úrslit á EM.

Nú ætla þeir félagar að sameina krafta sína á ný. Valsmenn segja frá því að þeir séu búnir að fá þessa áhrifamiklu þjálfara til að vinna saman á á Valsakademíunni þann 5. og 6. ágúst næstkomandi.

Heimir Hallgrímsson er þjálfari írska landsliðsins en Lagerbäck hefur síðustu ár unnið sem knattspyrnusérfræðingur í sænsku sjónvarpi.

Heimir var fyrst aðstoðarmaður Lagerbäck þegar sænski þjálfarinn tók fyrst við íslenska liðinu í lok árs 2011 en frá árinu 2013 þá voru þeir báðir aðalþjálfarar íslenska liðsins.

Heimir tók síðan einn við íslenska liðinu eftir EM 2016 og stýrði íslenska liðinu inn á HM í Rússlandi 2018. Heimir hefur seinna þjálfað Al-Arabi í Katar og landslið Jamaíku og Írlands.

Lagerbäck stýrði norska landsliðinu frá 2017 til 2020 og var seinna aðstoðarmaður Arnar Þórs Viðarssonar hjá íslenska A-landsliðinu.

Valsakademían fer fram dagana 5. til 16. ágúst, en Lars og Heimir verða með sérnámskeið dagana 5. og 6. ágúst. Þetta er einstakt tækifæri fyrir alla sem vilja styrkja þekkingu sína og færni í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×