Fótbolti

Sauð upp úr á blaða­manna­fundi Hollands á EM

Aron Guðmundsson skrifar
Þjarmað var að Andries Jonker, landsliðsþjálfara Hollands, á blaðamannafundi í gær
Þjarmað var að Andries Jonker, landsliðsþjálfara Hollands, á blaðamannafundi í gær Vísir/Getty

Það má með sanni segja að veg­ferð hollenska lands­liðsins á Evrópumótinu í Sviss fari ekki ró­lega af stað. Hollenskur blaðamaður sakaði í gær þjálfara liðsins um að trufla þátt­töku Hollands á mótinu eftir um­mæli í hlað­varpsþætti ytra.

Hollenska knatt­spyrnu­sam­bandið hafði gefið það út í janúar fyrr á þessu ári að samningur lands­liðsþjálfarans Andries Jon­ker yrði ekki fram­lengdur eftir Evrópumótið í Sviss og að leikir Hollands á mótinu yrðu þá síðustu leikir þess undir stjórn Jon­ker.

Í hlað­varpsþætti sem að Jon­ker fór í á dögunum sagðist hann hafa íhugað að hætta sem lands­liðsþjálfari Hollands fyrir EM en Holland mætir Wa­les í fyrstu um­ferð D-riðils í dag. Enn fremur sagðist Jon­ker þar efast um áhrif sín innan liðsins sem og stuðninginn í sinn garð.

Óhætt er að segja að hollenska pressan hafi þjar­mað að Jon­ker á blaða­manna­fundi fyrir leikinn gegn Wa­les í gær og ásakaði blaðamaður De Telegra­af, Jon­ker um að búa til brúðu­leik­hús (e.puppet show) þar sem að allt snerist um hann en ekki leik­menn hollenska lands­liðsins.

Jon­ker lét blaða­manninn heyra það á móti.

„Þessar konur hafa lagt allt í sölurnar til þess að vera hér á EM í Sviss. Allt. Það höfum við gert saman. Þið eruð hér í dag vegna okkar. Þessara kvenna. Konungs­fjöl­skyldan verður á fyrsta leiknum og þú dirfist til að kalla þetta brúðu­leik­hús. Ef þú telur þetta vera brúðu­leik­hús þá verður það bara að vera þín skoðun. Þú ert að móðga leik­mennina. Ég hef aldrei séð þig á æfingum okkar og þú ert síðan að spyrja mína leik­menn hvort þeir haldi að þetta verði brúðu­leik­hús.“

Jon­ker hefur verið lands­liðsþjálfari hollenska lands­liðsins frá árinu 2022. Undir hans stjórn komst hollenska lands­liðið í átta liða úr­slit HM árið 2023. Nú er liðið í dauðariðli EM með Eng­landi, Frakk­landi og Wa­les en aðeins tvö þessara liða komast áfram í átta liða úr­slit mótsins.

Jon­ker mun mæta eftir­manni sínum í starfi á EM því Arjan Veurin­k, að­stoðarþjálfari enska lands­liðsins, tekur við starfi lands­liðsþjálfara Hollands eftir EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×