Enski boltinn

Freyr missir lykilmann fyrir met­fé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aune Heggebö með búning West Bromwich Albion þegar Norðmaðurinn var kynntur til leiks hjá enska félaginu.
Aune Heggebö með búning West Bromwich Albion þegar Norðmaðurinn var kynntur til leiks hjá enska félaginu. wba.co.uk

Enska félagið WBA hefur keypt einn besta leikmann norska úrvalsdeildarfélagsins Brann og Freyr Alexandersson er því að missa eina af helstu stjörnum liðsins.

West Bromwich Albion er búið að ganga frá kaupunum á hinum 23 ára gamla Aune Heggebö.

Brann segir frá því á miðlum sínum að þetta sé stærsta sala félagsins frá upphafi. Kaupverðið er sagt vera fimm og hálf milljón evra eða um 787 milljónir íslenskra króna.

„Þó að það sé aldrei gott að missa mikilvæga leikmenn þá er þetta frábær saga fyrir bæði Brann og Aune. Þetta er strákur héðan sem lagði mikið á sig með þjálfurum okkar, bæði í akademíunni sem og hjá aðalliðinu. Nú fær hann tækifærið erlendis eftir svona stór félagsskipti sem er frábært,“ sagði Per-Ove Ludvigsen, íþróttastjóri hjá Brann.

Heggebö var með 51 mark í 146 leikjum fyrir Brann en hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu árið 2018.

Heggebö mun spila með landa sínum Torbjörn Heggem hjá West Brom en sá hefur unnið sér sæti í norska landsliðinu.

West Bromwich Albion spilar i ensku b-deildinni og endaði í níunda sæti á síðustu leiktíð.

Brann er í öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar en er níu stigum á eftir toppliði Viking.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×