Innlent

Ís­lands­met slegið í málþófi

Agnar Már Másson skrifar
Njáll Trausti Friðbertsson hefur talað lengst eða í um átta og hálfan tíma samtals.
Njáll Trausti Friðbertsson hefur talað lengst eða í um átta og hálfan tíma samtals. Vísir/Vilhelm

Ekkert mál hefur verið rætt eins lengi og veiðigjaldafrumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra. Málið hefur verið til umræðu í ríflega samtals 147 klukkustundir og hreppir fyrsta sætið af fyrri methafa, sem var þriðji orkupakkinn.

Umræðan um þriðja orkupakkann árið 2019 nam 147 klukkustundum og 18 mínútum (147,31 klst) en umræðan um veiðigjöldin er nú orðin þremur mínútum lengri, 147 klukkustundir og 21 mínúta (147,35 klst). Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stóð í ræðupúlti þegar metið var slegið, og var hann síðasti ræðumaður áður en hlé var gert á fundinum til klukkan 18.15

Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er ræðukóngur veiðigjaldaumræðunnar en hann hefur talað í um 8 tíma og 25 mínútur. Á hælum honum eru þingmenn Miðflokksins, Þorgrímur Sigmundsson og Ingibjörg Davíðsdóttir. 

Flestar ræður á þó Jens Garðar Helgason, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur flutt 176 ræður. 

Um 957 þingræður hafa verið fluttar (5.803 mín.) og 2.204 athugasemdir gerðar (3038 mín.) í pontu, samkvæmt vef Alþingis.

Uppfært: Í upphafi kom fram að Hildur Sverrsidóttir hafi staðið í pontu þegar metið var slegið, þar var byggt a miskilningi. Rétt er að Vilhjálmur Árnason hafi verið í pontu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×