Íslenski boltinn

FHL bætir tveimur banda­rískum við hópinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isabelle Gilmore og Taylor Hamlett styrkja FHL liðið á sitt hvorum enda vallarins.
Isabelle Gilmore og Taylor Hamlett styrkja FHL liðið á sitt hvorum enda vallarins. FHL fótbolti

Botnlið Bestu deildar kvenna í fótbolta hefur styrkt sig fyrir lokabaráttuna fyrir tilverurétti í deildinni.

FHL hefur tapað tíu fyrstu leikjum sínum í sumar og aðeins skorað samtals fjögur mörk í þessum tíu leikjum. Liðið þarf því svo sannarlega á hjálp að halda í sókn sem vörn.

Taylor Hamlett, 23 ára framherji, hefur samið við Austfjarðaliðið en hún kemur úr Miami Ohio háskólanum.

„Taylor er leiðtogi inni á vellinum og mun leiða sókn FHL í leikjunum sem eftir eru í Bestu deildinni,“ segir í frétt um Hamlett á miðlum FHL.

Hamlett var fyrirliði Miami University í Ohio fylki á lokaárinu sínu þar sem hún skoraði tíu mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Hún reyndi alls 63 skot í átján leikjum eða 3,5 skot að meðaltali í leik.

Ekkert af mörkum hennar komu úr vítaspyrnum og hún náði einum leik með bæði tveimur mörkum og tveimur stoðsendingum.

FHL hefur einnig skrifað undir samning við Isabelle Gilmore sem kemur frá Bowling Green State háskólanum. Hún er 23 ára fjölhæfur varnarmaður og mun styrkja vörn FHL.

FHL skoraði 55 mörk í fyrstu fjórtán leikjum sínum í Lengjudeildinni í fyrra en leyfðu þá Emmu Hawkins (24 mörk) og Samönthu Smith (15 mörk) fara. Hawkins fór til Portúgals og Smith til Breiðabliks.

FHL tapaði þremur af síðustu fjórum leikjum sínum og skoraði aðeins eitt mark samtals í tapleikjunum þremur.

Liðið hefur síðan ekki skoraði sjö af tíu leikjum sínum í sumar og vantaði augljóslega öflugan sóknarmann í sitt lið. Hvort Hamlett leysi þessa miklu þörf verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×