Sport

Elsti maraþonhlaupari sögunnar varð fyrir bíl og lést

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fauja Singh sést hér á hlaupum þegar hann var orðinn 102 ára gamall.
Fauja Singh sést hér á hlaupum þegar hann var orðinn 102 ára gamall. Getty/Priyanka Parashar/

Fauja Singh er elsti maðurinn sem hefur hlaupið maraþonhlaup og sá fyrsti til að gera það eftir hundrað ára afmælið. Hann lést í gær en þó ekki af náttúrulegum orsökum.

Singh lést eftir að hafa orðið fyrir bíl þar sem hann var í göngutúr. Hann var orðinn 114 ára gamall. Slysið varð nálægt heimili hans í Jalandhar í Punjab á Indlandi. Singh var fluttur á sjúkrahús en lést af sárum sínum.

Singh hafði verið að fara yfir götuna um hálf fjögur um daginn þegar ónefndur bíll keyrði á hann með þessum hræðilegum afleiðingum.

Singh sagðist vera fæddur 1. apríl 1911 en hann var ekki með fæðingarvottorð til að staðfesta það. Hann byrjaði að hlaupa þegar hann var orðinn 89 ára gamall þegar flestir eru farnir að taka því rólega.

Singh setti heimsmet í maraþonhlaupum hjá þeim sem eru bæði orðnir níræðir og tíræðir. Hann fékk gælunafnið „Turbaned Tornado“ eða „Skýstrókurinn með vefjarhöttinn“.

Hann varð sá fyrsti til að klára maraþonhlaup bæði 100 ára og 101 árs gamall.

Singh var afar vinsæll meðal áhorfenda á maraþonhlaupum og Elísabet Englandsdrottning heiðraði hann líka á sínum tíma.

Singh hljóp einnig með Ólympíueldinn fyrir Ólympíuleikana í London árið 2012 þegar hann var búinn að halda upp á hundrað ára afmælið sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×