Erlent

Aðalsvið Tomorrowland brann til kaldra kola

Agnar Már Másson skrifar
Sviðið er gjörónýtt eftir brunann.
Sviðið er gjörónýtt eftir brunann. Skjáskot/X

Aðalsvið raftónlistarhátíðarinnar Tomorrowland í Belgíu varð eldi að bráð í dag aðeins tveimur dögum áður. Hátíðin hefst á föstudag og hundruð þúsunda manns munu sækja hana heim í bæinn Boom.

„Vegna alvarlegs atviks og eldsvoða á aðalsviði Tomorrowland hefur ástkæra aðalsviðið okkar orðið fyrir miklum skemmdum,“ sögðu skipuleggjendur hátíðarinnar í yfirlýsingu í kvöld. Þar kom fram að engan hafi sakað í brunanum en orsök hans sé enn óljós.

Danstónlistarhátíðin á að hefjast á föstudaginn í bæ sem ber hið viðeigandi nafn Boom og er búist við að 400 þúsund manns muni sækja hátíðina heim yfir næstu tvær helgar.

Eldurinn kviknaði um klukkan 18.00 að staðartíma (16 að íslenskum tíma) og á myndböndum mátti sjá þykkan gráan reyk umlykja sviðið.

Slökkviliðsmenn hafa unnið að því að ráða niðurlögum eldsins og koma í veg fyrir að hann nái til nærliggjandi húsa og skóga. Íbúum hefur sumum verið gert að rýma heimili sín, að sögn BBC.

Í annarri tilkynningu sem birt var á vefsíðu hátíðarinnar sögðu skipuleggjendur að hátíðarsvæðið myndi samt opna á fimmtudaginn eins og áætlað var og að áherslan væri „á að finna lausnir fyrir hátíðarhelgina“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×