Enski boltinn

Snoop Dogg orðinn einn af eig­endum Swansea City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snoop Dogg sést hér í nýrri keppnistreyju Swansea City.
Snoop Dogg sést hér í nýrri keppnistreyju Swansea City. @snoopdogg

Þeir sem voru að pæla í því hvað væri í gangi þegar bandaríski rapparinn Snoop Dogg frumsýndi nýjan búning Swansea City á dögunum hafa nú fengið svarið við því.

Snoop Dogg var í gær opinberaður sem nýr meðeigandi í velska félaginu.

Það kemur ekki fram í tilkynningunni hversu mikinn hlut eða hversu mikið Snoop Dogg borgaði fyrir sinn hlut aðeins að hann sé nú kominn inn í eigendahópinn. Króatíska goðsögnin Luka Modric er líka nýkominn inn í eigandahópinn.

„Það þekkja allir ást mína á fótbolta og það er mjög sérstakt fyrir mig að fá að komast inn í eigendahóp Swansea City,“ sagði Snoop Dogg í tilkynningu.

„Saga félagsins og svæðisins snerti taug hjá mér. Þetta er stolt verkamannaborg og félagið er það líka. Þetta er undirhundur sem bítur frá sér alveg eins og ég,“ sagði Snoop

Snoop Dogg er með meira en 88 milljón fylgjendur á Instagram og tók eins og áður sagði þátt í að kynna nýja treyju félagsins um síðustu helgi.

Hann skaut þá líka létt á Hollywood leikarann Ryan Reynolds sem er eigandi hjá öðru velsku félagi, Wrexham.

Swansea City varð í ellefta sæti í ensku b-deildinni á síðustu leiktíð og var nokkuð frá því að komast upp í ensku úrvalsdeildina. Félagið lék síðast í úrvalsdeildinni á 2017-18 tímabilinu en nokkrum árum fyrr var Gylfi Þór Sigurðsson í aðalhlutverki hjá liðunu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×