Íslenski boltinn

Aftur­elding að styrkja sig fyrir seinni hlutann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mosfellingar sækja liðsstyrk.
Mosfellingar sækja liðsstyrk. Vísir/Diego

Nýliðar Aftureldingar hafa staðið sig með prýði það sem af er tímabili í Bestu deild karla í fótbolta. Betur má þó ef duga skal.

Afturelding hefur verið svo gott sem óstöðvandi á heimavelli en gengið öllu lakara þegar liðið leikur að heiman. Til að bæta úr því er liðið að sækja hinn þrítuga Luc Kassi sem spilaði síðast í Svíþjóð. Fótbolti.net greinir frá.

Kassi, sem kemur frá Fílabeinsströndinni, lék síðast með Degerfors í Svíþjóð. Samningi hans þar hefur verið rift og því getur hann gengið til liðs við Aftureldingu á frjálsri sölu. Hinn fjölhæfi Kassi er með norskan ríkisborgararétt eftir að spila fyrir Stabæk frá árunum 2012-2022.

Þá lék hann með KÍ Klaksvík í Færeyjum þegar liðið fór alla leið í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu um árið.

Afturelding er sem stendur í 7. sæti Bestu deildar karla með 19 stig. Stutt er í efri hlutann en Vestri situr sem stendur sæti ofar með betri markatölu. Það er þó stutt í botnbaráttuna en aðeins fjögur stig eru í ÍA og KA sem sitja í neðstu tveimur sætunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×