Golf

Ís­lenskur dómari í næst síðasta rás­hópnum á The Open

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Örn Birgisson verður í sviðsljósinu á lokadegi Opna breska meistaramótinu en hann dæmdi hjá heimamanninum Rory McIlroy.
Haukur Örn Birgisson verður í sviðsljósinu á lokadegi Opna breska meistaramótinu en hann dæmdi hjá heimamanninum Rory McIlroy. Getty/Filippo Alfero

Haukur Örn Birgisson, fyrrverandi formaður Golfsambands Íslands, fékk í dag mikla viðurkenningu á starfi sínu sem golfdómari.

Haukur hefur verið einn dómara á The Open, Opna meistaramótinu í golfi sem hefur farið fram síðustu daga á Royal Portrush golfvellinum á Norður Írlandi.

Í dag er komið að lokadeginum og Haukur fékk þann heiður að vera dómari í næst síðasta ráshópnum en þar spila þeir Rory McIlroy og Matt Fitzpatrick. Fitzpatrick kom inn í gær á níu höggum undir pari en heimamaðurinn McIlroy er á átt höggum undir pari. 

Scottie Scheffler er efstur á fjórtán höggum undir pari og Li Haotong er annar á tíu höggum undir pari.

Þorsteinn Hallgrímsson er að lýsa lokadeginum á Sýn Sport 4 ásamt Loga Bergmanni Eiðssyni. Þorsteinn sagði frá því í lýsingunni að Haukur dæmi í næst síðasta ráshópnum.

„Það er ekkert ósennilegt að við munum sjá Hauk Örn Birgisson bregða fyrir í dag. Hann er dómari í ráshópnum hjá Fitzpatrick og McIlroy. Það er mikill heiður að vera dómari í næst síðasta ráshópi á lokadegi á Opna meistaramótinu,“ sagði Þorsteinn og Logi tók að sjálfsögðu undir það.

Haukur er virtur í golfheiminum en hann er einnig fyrrverandi formaður evrópska golfsambandsins.

The Open er fjórða og síðasta risamót ársins og margir golfáhugamenn út um allan heim munu örugglega fylgjast vel með í dag.

Hægt að fylgjast með öllu sem gerist á þessum spennandi lokadegi á Sýn Sport 4.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×