Enski boltinn

Son eftir­sóttur í LA og Tottenham til­búið að selja en ekki strax

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Heung-Min Son hefur verið einn besti leikmaður Tottenham síðustu ár en er ekki hluti af framtíðaráformum Thomas Frank.
Heung-Min Son hefur verið einn besti leikmaður Tottenham síðustu ár en er ekki hluti af framtíðaráformum Thomas Frank. Justin Setterfield/Getty Images

Los Angeles FC í MLS deildinni leggur mikið upp úr því að lokka Heung-Min Son í félagaskiptaglugganum sem var að opna í Bandaríkjunum en Tottenham mun missa heilmiklar tekjur ef hann er seldur strax.

Félagaskiptaglugginn í MLS deildinni opnaði í dag og stjórnarmenn félagsins í Los Angeles eru vongóðir um að festa kaup á Son áður en glugginn lokar aftur þann 21. ágúst.

Son er sagður vera ekki hluti af framtíðaráformum nýja þjálfarans Thomas Frank hjá Tottenham og félagið er sagt tilbúið að losa hann fyrir rétt verð, en helst ekki fyrr en eftir æfingaleikina í Suður-Kóreu.

Son vann Evrópudeildina með Tottenham í vor. Carl Recine/Getty Images

Tottenham spilar nefnilega tvo æfingaleiki í Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu, gegn Arsenal og Newcastle þann 31. júlí og 3. ágúst. Ef Son spilar þá leiki ekki mun Tottenham missa 75 prósent af tekjunum sem félagið fær fyrir að spila leikina.

Son er vinsælasti íþróttamaður Suður-Kóreu og hefur mesta aðdráttaraflið í Seoul. Það er einnig sagður hluti af ástæðunni fyrir því að LA FC vill fá hann til félagsins, í Los Angeles búa fleiri frá Suður-Kóreu en í nokkurri annarri borg í Bandaríkjunum.

Son hefur verið einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar undanfarinn áratug og vann loksins titil með Tottenham þegar félagið vann Evrópudeildina í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×