Enski boltinn

Eig­endur Man. City græða pening á kaupum Man. United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryan Mbeumo spilar númer nítján hjá Manchester United á næstu leiktíð en yfirmenn Pep Guardiola hjá Manchester City græða líka á kaupum nágranna sinna.
Bryan Mbeumo spilar númer nítján hjá Manchester United á næstu leiktíð en yfirmenn Pep Guardiola hjá Manchester City græða líka á kaupum nágranna sinna. Getty/Eston Parker/Manchester United

Manchester United náði loksins að klára kaupin á franska framherjanum Bryan Mbeumo í þessari viku eftir eltingarleik við hann í allt sumar. Það eru samt fleiri í Manchester borg sem fagna því.

Mbeumo var sjálfur himinlifandi með að komast til draumaliðsins og fær nú það krefjandi verkefni að lífga við sóknarleik United sem var til mikilla trafala síðasta vetur þegar liðið endaði í fimmtánda sætinu í ensku úrvalsdeildinni.

United borgar Brentford 65 milljónir punda fyrir framherjann eða um 10,7 milljarða króna.

Það vita þó kannski færri því að eigendur Man. City græða pening á þessum kaupum Man. United á framherja Brentford.

Ástæðan fyrir því eru að hinn 25 ára gamli Mbeumo hóf meistaraflokksferil sinn hjá franska félaginu Troyes.

Mbeumo lék með Troyes frá því hann var fjórtán ára þar til að hann var tvítugur.

Troyes er einmitt í eigu City Football Group sem á einnig Manchester City og fjölda annarra félaga út um allan heim.

City Football Group mun græða 9,4 milljónir evra á sölunni á Mbeumo eða meira en 1,3 milljarða króna.

7,4 milljónir evra koma til vegna sölusamnings Troyes við Brenford um áframsölu og tvær milljónir evra koma til vegna uppeldisbóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×