Enski boltinn

Sádarnir spenntir fyrir Antony

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Antony fagnar hér í leik með Betis.
Antony fagnar hér í leik með Betis. vísir/getty

Framtíð Brasilíumannsins Antony er í óvissu enda hefur Man. Utd lítinn áhuga á að halda honum í sínum herbúðum.

Leikmaðurinn var lánaður til Real Betis á Spáni síðasta vetur þar sem hann spilaði verulega vel. Það jók áhuga annarra liða á honum.

Betis vill endilega kaupa hann en hefur ekki efni á honum. Menn þar á bæ lifa aftur á móti enn í voninni um að fá hann lánaðan á nýjan leik.

Atletico Madrid og FC Bayern eru sögð vera áhugasöm en eitthvað lítið hefur þó gerst í þeim málum.

Bayer Leverkusen var sagt vera eitt þeirra liða sem hefði áhuga en þjálfari liðsins er Erik ten Hag sem keypti hann einmitt til Man. Utd á 86 milljónir punda. Ten Hag segist aftur á móti ekki hafa áhuga.

Nú hefur komið sterkur áhugi á leikmanninum frá tveimur af bestu liðum Sádi Arabíu. Liðum sem gætu greitt það sem Man. Utd vill fá fyrir leikmanninn. Hvort Antony vilji svo fara til Sádi er allt annar handleggur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×