Fótbolti

„Auð­vitað skoraði Orri, hann skorar alls staðar“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Orri verður í stóru hlutverki hjá Real Sociedad á næsta tímabili ef hann heldur svona áfram.
Orri verður í stóru hlutverki hjá Real Sociedad á næsta tímabili ef hann heldur svona áfram. getty

Nýi þjálfarinn hjá Real Sociedad er mjög hrifinn af Orra Steini Óskarssyni, sem hefur glímt við meiðsli undanfarið en er nú orðinn heill heilsu og byrjaði af krafti í fyrsta æfingaleiknum á undirbúningstímabilinu.

Orri kom boltanum þrisvar í netið í æfingaleik gegn Yokohama í Japan fyrr í dag, fyrsta markið var reyndar dæmt af en tvö þeirra stóðu og Real Sociedad vann 2-1 sigur á heimaliðinu.

Orri var vel staðsettur í teignum og skoraði fyrra markið með skalla eftir fyrirgjöfAnder Barrenetxea. Seinna markið skoraði hann svo úr víti, sem gefur góð fyrirheit fyrir tímabilið framundan.

„Frábært að við séum farnir að skora og auðvitað skoraði Orri, hann skorar alls staðar, hefur skorað fyrir öll lið sem hann hefur spilað með og á eftir að skora helling fyrir okkur“ sagði nýi þjálfari liðsins, Sergio Francisco, eftir leikinn.

Vísir hefur áður fjallað um þjálfaraskiptin hjá Real Sociedad, upp úr umfjöllun spænska miðilsins Mundo Deportivo, en þar kom fram að Orri yrði aðalframherji liðsins á næsta tímabili ef hann stæði sig vel á undirbúningstímabilinu.

Sjá einnig: Orri verður aðalframherjinn

„Þetta verður gott fyrir sjálfstraustið hjá honum og við sáum að hann er í fantaformi, þó hann hafi bara spilað fyrri hálfleikinn í dag. Við erum ánægður með hann og hans framlag til liðsins“ sagði Sergio einnig eftir leikinn í dag.

Æfingaferð liðsins í Japan er nú lokið og ferðinni haldið aftur heim til Spánar. Liðið spilar þrjá æfingaleiki til viðbótar áður en keppnistímabilið hefst þann 16. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×