Enski boltinn

Fjór­tán er vin­sælasta númer sumarsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gyökeres og Marcus Rashford völdu báðir treyjunúmer Thierry Henry en þeir eru ekki þeir einu.
Viktor Gyökeres og Marcus Rashford völdu báðir treyjunúmer Thierry Henry en þeir eru ekki þeir einu. Getty/Stuart MacFarlane/David Ramos

Það er eitthvað með töluna fjórtán og bestu leikmennina sem hafa skipt um félög í alþjóðlega fótboltanum í sumar. Fjórir af þeim hafa allir valið sömu töluna á nýja búninginn sinn.

Það vakti athygli að framherjarnir Viktor Gyökeres og Marcus Rashford ákváðu báðir að feta í fótspor Thierry Henry þegar kemur að treyjunúmeri.

Gyökeres valdi treyju númer fjórtán hjá Arsenal þar sem Henry er markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi. Rashford valdi treyju númer fjórtán hjá Barcelona þar sem Henry spilaði frá 2007 til 2010.

Gyökeres spilaði númer níu hjá Sporting en hún var upptekin hjá Arsenal því það er númer Brasilíumannsins Garbiel Jesus.

Rashord spilaði númer tíu hjá Manchester United og var númer níu hjá Aston Villa þegar hann var lánaður þangað á síðasta tímabili. Lamine Yamal var að fá tíuna hjá Barcelona með viðhöfn og hún er að losna í bráð. Pólski framherjinn Robert Lewandowski er síðan númer níu hjá Barcelona.

Þessir tveir kappar eru hins vegar ekki þeir einu sem hafa valið treyju númer fjórtán í sumar.

Króatinn Luka Modric spilaði lengi í númer tíu hjá Real Madrid en hann yfirgaf spænska félagið í sumar og samdi við ítalska félagið AC Milan. Modric valdi treyju fjórtán hjá AC Milan. Portúgalska stjarnan Rafael Leao spilar í treyju númer tíu hjá AC Milan.

Nú síðast ákvað Luis Díaz sem Bayern München keypti frá Liverpool, að velja sér líka treyju númer fjórtán.

Díaz hefur spilað númer sjö hjá Liverpool en Serge Gnabry er í sjöunni hjá Bæjurum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×