Skoðun

Hið tæra illa

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar

Maðurinn er grimmasta dýrið á jörðinni. Engin önnur tegund hefur fundið upp þann urmul af vopnum og gereyðingartólum sem smíðuð hafa verið í gegnum tíðina. Engin önnur tegund hefur fundið upp álíka aðferðir og ,,Homo Sapiens“ til kvelja fólk og valda því sársauka og vanlíðan. Þessi staðreynd sker okkur algerlega frá öðrum tegundum á þessari jörð. Allt frá haustinu 2023 höfum við (almenningur) orðið vitni að atburðum sem nánast eiga sér enga hliðstæðu, sökum mannvonsku og níðingsskapar.

Stokkhólmur í rúst

Eflaust hafa einhverjir sem lesa þennan greinarstubb komið til Stokkhólms í Svíþjóð. Þar búa um tvær milljónir manna með úthverfum meðtöldum. Ímyndaðu þér, lesandi góður, að það væri búið að jafna um 80-90% af Stokkhólmi við jörðu og það væru aðeins nokkrir staðir þar sem hægt væri að nálgast matvæli, en þau væru af mjög skornum skammti. Þannig er staðan á Gaza.

En hvernig byrjaði þessi hörmung? Jú, með árásum hryðjuverkasamtakanna Hamas, sem sögulega séð hafa verið dyggilega studd af Íran, þann 7.október, á Ísrael.

Meðal annars var ráðist á tónlistarhátíð, þar sem ungt, saklaust fólk var að skemmta sér. Í árásinni voru hátt í 1300 manns drepin og á þriðja hundrað tekinn í gíslingu, ástand sem enn stendur yfir og er eitt helsta þrætuepli þessara átaka, þar sem nokkrir tugir er enn í gíslingu.

Hamas hefur stjórnað á Gaza frá 2007 og ég tek það hér skýrt fram að ég fordæmi algerlega hryðjuverkaárásir sem þessar, sem auðvitað bitna yfirleitt alltaf mest á almennum borgurum, enda helsta markmið slíkra árása að vekja ótta og skelfingu.

Hernaðarmaskínan vakin

En eftirleikurinn var á þessa leið: Þessi árás (meðal annars til að skemma fyrir batnandi samskiptum Ísraels og Arabaríkjanna, sérstaklega Sádí-Árabíu), vakti hressilega einhverja mestu og best skipulögðu hernaðarmaskínu sem til er, Ísraelsher (e.IDF, Israeli Defence Forces).

Her Ísrael hefur yfir að ráða nánast öllum bestu og þróuðustu vopnum sem til eru í heiminum. Síðan 1950 hefur landið fengið tugi milljarða dollara í beinan hernaðarstuðning frá Bandaríkjunum, en undanfarin ár hefur þessu tala verið um 3,3 milljarðar á ári, tvöfaldaðist reyndar á milli áranna 2023 til 2024, í um 6.6 milljarða dollara. Sem er álíka og öll þjóðarframleiðsla Íslands. Að auki fær Ísrael enn meiri stuðning frá Bandaríkjunum, sem ekki er notaður til hernaðar.

Ísrael er algerum sérflokki í þessu tilliti, en eins og þeir sem fylgjast með fréttum vita, eru Bandaríkin almennt að skera niður nánast alla aðra þróunaraðstoð til annara ríkja, segja sig frá alþjóðastofnunum og álíka. Það tómarúm verður að öllum líkindum fyllt af Kínverjum og mun því að öllum líkindum efla stöðu þeirra í alþjóðakerfinu, á kostnað Bandaríkjanna. Svo grunnhyggin eru stjórnvöld í Washington um þessar mundir.

Hryllingur á hverju kvöldi

Gaza-stríðið hefur birst okkur í gegnum fréttir í formi skelfilegra mynda og myndskeiða, sem eru í raun svo hryllileg að þau eru í raun ekki birtingarhæf. Væru þessi myndskeið kvikmynd, þá væru þau sennilega bönnuð innan 18 ára, jafnvel dæmd óbirtingarhæf. Þau eru tekin af íbúum á Gaza, en lýðræðisríkið Ísrael neitar erlendum fjölmiðlum aðgang að Gaza. Tugir blaðamanna frá Gaza hafa verið drepnir við störf sín.

Ég ætla ekki að lýsa þessum hryllingi nánar, sem flæðir um alla miðla, en hugurinn leitar til versta atburða síðustu aldar, Helfararinnar, þegar við sjáum myndir af börnum sem eru að látast af hungri á Gaza. Og ef einhverjir ættu að skilja hið hryllilega eðli þeirra atburða, þá eru það einmitt Ísraelsmenn og gyðingar. Eru þeir komnir í hring? Það vakti athygli fyrir skömmu að tvenn mannréttindasamtök í Ísrael gáfu það út að þau telja að Ísrael stundi það sem kallast ,,þjóðarmorð“ (e. Genocide) á íbúum Gaza. Einnig hefur verið gefin út alþjóðleg handtökuskipun á Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael vegna átakanna.

,,Drepum þau öll“

En einhverjar ömurlegustu fréttir úr þessum átökum hingað til voru birtar á RÚV fyrr á þessu ári en þær sýndu almenna borgara í Ísrael sem voru að ferðast, sem túristar, að landamærum Gaza og virða fyrir sér eyðilegginguna og sýna börnum sínum. Svona, rétt eins og við förum til Grindavíkur og út í hraun, til þess að virða afleiðingar eldgosanna fyrir okkur.

Og það fylgdi gjarnan með hjá þessum ,,stríðstúristum“; ,,drepum þau öll, þetta eru hvort eð er allt saman hryðjuverkamenn.“ Þarna varð maður algerlega kjaftstopp og í raun er erfitt að ímynda sér hið botnlausa hatur sem virðist vera þarna á ferðinni, það er bara mjög erfitt að skilja það. Það er engu að síður staðreynd.

Manni dettur hreinlega í hug að valdamenn í Ísrael séu með einhverjum hætti gjörsamlega helteknir af því sem kalla mætti ,,stríðssturlun“ og hluti ísraelsku þjóðarinnar með? Öfgamenn inn stjórnar Ísrael virðast nánast ráða ferðinni en einnig er vitað að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra, notar þetta stríð líklega til þess að halda sér á ,,pólitísku lífi“ – en mál gegn honum, meðal annars vegna meintrar spillingar, er í gangi í dómskerfi Ísraels. Þá er ,,gott“ að geta bara verið í stríði, til að dreifa athyglinni. Klassískt ,,trix“.

Um 60.000 fallnir

Samkvæmt yfirvöldum á Gaza er nú búið drepa um 60.000 íbúa á svæðinu og enginn veit hvað marga er að finna í rústunum, en Gaza er álíka stórt svæði og Reykjanesskaginn og sennilega hundruð eða þúsundir líka undir enn undir rústum. ,,Endurgreiðslan“ og hin gríðarlega hefnd Ísraelsmanna vegna árása Hamas er löngu komnar út fyrir öll mörk og í raun má velta því upp hvort þetta blóðbað sem er í gangi, hafi í raun öðlast sitt eigið líf? Eru það stjórnlausir ráðmenn sem keyra stríðið áfram, blindaðir af hatri? Ráðamenn sem kunna sér engin siðferðileg mörk? Rökin eru þau að landið sé að ,,verja sig“ en ljóst er að það er fyrir löngu hætt að vera hin raunverulega ástæða. Markmið Ísraels virðist vera að gera líf íbúa Gaza algerlega óbærilegt.

Allt þetta væri að sjálfsögðu ekki hægt, nema án ,,verndarvængs“ Bandaríkjamanna. Það er í raun skelfilegt að hugsa til þess að landið sem einu sinni kenndi sig við ,,frelsi“ og ,,leit að hamingju“ skuli endalaust leggja blessun sína yfir þetta sem á gengur þarna fyrir botni Miðjarðarhafs. Ábyrgð valdhafa vestanhafs er mikil í þessum efnum. Þessi stefna Bandaríkjamanna hefur verið í gangi allt frá stofnun Ísraels og er yfirleitt með fyrstu verkum nýs forseta Bandaríkjanna að ítreka hana með einum eða öðrum hætti.

Gagnsleysi

Alþjóðakerfið, Sameinuðu þjóðirnar, Öryggisráðið, já, öll þessi kerfi, standa svo nánast algerlega vanmáttug frammi fyrir þeirri grimmd sem á sér stað á Gaza, þar sem öllum tólum er beitt til að gera líf íbúanna að ,,helvíti á jörð“ – allt frá eldflaugum, til skriðdreka og jarðýtna, sem notaðar eru til þess að jafna hús við jörðu. Þetta eru sömu jarðýtur og við notum hér á landi til þess að byggja varnargarða gegn eldgosum. Gagnsleysið sem birtist okkur frá höfuðstöðvum S.Þ. er sláandi og mikið umhugsunarefni. Allar yfirlýsingar S.Þ. virðast sem sem hjóm eitt.

Stóra spurningin er: Hversu lengi á þessi tæra illmennska að viðgangast gegn algerlega varnarlausum hópi fólks, sem á það á stöðugt á hættu að vera skotið í tætlur í matarröðum, eða vera sprengt í loft upp í tjöldunum sem það býr í (búið að sprengja nánast öll húsin)?

Hjálpargögn í hafið

Það verður að finna einhver ráð til þess að stöðva þetta brjálæði sem er í gangi þarna, sem og svo sem víðar í heiminum um þessar mundir. Manni líður því miður eins og maður sé staddur í Star Wars kvikmynd, þar sem Svarthöfði er með undirtökin og að ,,Mátturinn“ sé farinn út á hafsauga. Vond tilfinning.

Það hvíla óvenju dimmir skuggar yfir heimsbyggðinni nú um stundir og ógnirnar sem við stöndum frammi fyrir eru margar. Þá á ég við Úkraínu, stríð í Súdan, sem nánast ekkert er fjallað um, umhverfisáhrif og fleira. Það eru sögð vera um 60 átök/stríð í gangi um þessar mundir. Og ég veit að ég er ekki að teikna upp bjartsýna sviðsmynd, en skepnan ,,Homo Sapiens“ hefur líka getu til þess að breyta hlutum til hins betra. Mikla getu.

Einhverjum hjálpargögnum var varpað úr lofti síðustu helgina í júlí, en það er auðvitað bara sýndarmennska og það magn sem varpað var úr lofti er á við einn til tvo flutningabíla, en þúsundir þeirra hafa staðið tilbúnir við landamæri Gaza mánuðum saman. Tvær milljónir manna þurfa auðvitað heilmikið magn af matvælum, hreinlætisvörum og lyfjum. Öllu þessu hefur íbúum Gaza nánast alfarið verið neitað undanfarin misseri.

,,Mannúðarhlé“ – viðurkenna Bretar?

Vitað er að hluti þeirra lenti meðal annars í hafinu undan ströndum Gaza, sem og tjöldum íbúa þar sem fólk særðist. Hvaða gagn er að því að varpa hjálpargögnum í hafið? Þetta er auðvitað súrrealískt og var gert í því sem af hræsni er kallað ,,mannúðarhlé“ á bardögum. Þegar þeim lýkur hefst sprengjuregnið aftur.

Frakkar tilkynntu fyrir skömmu að þeir muni viðurkenna Palestíu sem ríki í september og þá bætast í hóp um 150 ríkja sem gert hafa það. Það verður ,,voldugasta“ ríkið sem gerir það. Keir Stramer, forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti svo þann 29.júlí síðastliðinn að Bretar myndu viðurkenna tilvist palestínsk ríkis, einnig í september, ef að Ísraelsmenn myndu ekki bæta framkomu sína gagnvart íbúum Gaza. Þetta var því einskonar hótun um viðurkenningu gagnvart Ísrael, sem auðvitað vilja alls ekki að Bretar (né aðrar þjóðir) viðurkenni tilvist ríkis Palestínu. Þetta mun væntanlega allt saman skýrast á næstu vikum, en viðurkenning Breta myndi vega þyngra heldur en Frakka, vegna sögulegra ástæðna sem ekki verða raktar hér.

Ég vil trúa á að það ,,birti upp um síðir“ – eins og við Íslendingar segjum. Lausnin er að sjálfsögðu að stoppa stríðið sem allra fyrst og setjast að samningaborðinu, en allar slíkar tilraunir hafa fram að þessu ekki borið árangur. Það er mjög sorglegt. Friðarferli er afar flókið og tímafrekt – en á meðan mallar ,,hið tæra illa“ áfram, eins og enginn sé morgundagurinn. Með skelfilegum afleiðingum.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og kennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×