Körfubolti

Stórskotasýning Sig­tryggs dugði ekki til sigurs

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sigtryggur Arnar átti stórkostlegan fyrri hálfleik. Myndin er úr safni.
Sigtryggur Arnar átti stórkostlegan fyrri hálfleik. Myndin er úr safni.

Sigtryggur Arnar Björnsson fór hamförum í æfingaleik Íslands og Póllands, en það dugði strákunum okkar ekki til sigurs. Pólverjarnir börðust til baka í seinni hálfleik og unnu að lokum með tveimur stigum, 92-90.

Ísland leiddi með átta stigum, 46-38 í hálfleik, missti forystuna í þriðja leikhluta, vann hana svo aftur í þeim fjórða en náði ekki að halda út. Pólverjarnir tóku fram úr á ný og unnu að lokum tveggja stiga sigur, 92-90.

Craig Pedersen landsliðsþjálfari hvíldi sína bestu leikmenn í dag; Martin Hermannsson, Tryggvi Hlinason, Ægir Þór Steinarsson og Elvar Már Friðriksson spiluðu ekki.

Sigtryggur Arnar nýtti tækifærið og skaut Pólverjana í kaf í fyrri hálfleik, setti niður sex þrista úr jafnmörgum tilraunum. Sjöunda tilraunin, í upphafi seinni hálfleiks, fór sömuleiðis ofan í körfuna en eftir það hægðist á honum og öllu íslenska liðinu í leiðinni.

Landsliðið heldur nú heim til Íslands en fer aftur út 12. - 16. ágúst til Portúgal og spilar æfingaleiki við heimamenn og Svíþjóð.

Þaðan fara þeir aftur til Íslands og æfa, áður en förinni er heitið til Litaén í fleiri æfingaleiki.

Allir þessir æfingaleikir eru hluti af undirbúningi liðsins fyrir Evrópumótið í körfubolta sem fram fer 27. ágúst til 14. september. Þar leikur Ísland í D-riðlinum, sem verður spilaður í Póllandi og inniheldur Frakkland, Slóven­íu, Belg­íu, Ísra­el og heimamenn Póllands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×