Íslenski boltinn

Tómas Bent seldur til Skot­lands

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tómas Bent Magnússon og Daði Berg Jónsson í baráttu um boltann fyrr í sumar. 
Tómas Bent Magnússon og Daði Berg Jónsson í baráttu um boltann fyrr í sumar.  Vísir/Anton

Skoska úrvalsdeildarfélagið Hearts hefur gengið frá samkomulagi við Val um kaup á miðjumanninum Tómasi Bent Magnússyni.

Hinn 23 ára gamli Tómas Bent samdi við Val fyrir yfirstandandi tímabil eftir að hafa leikið allan sinn feril með uppeldisfélaginu ÍBV. Hann er stór ástæða þess að Valsmenn hafa ekki saknað reynsluboltans Gylfa Þórs Sigurðssonar sem gekk í raðir Víkinga eftir mikið fjaðrafok.

Tómas spilaði tíu deildarleiki í sumar og skoraði í þeim tvö mörk. Þá skoraði miðjumaðurinn tvö mörk í 3-0 sigri Vals á Flora Tallinn í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu, áður en Valur datt út gegn Kauno Zalgiris. 

Valur er hins vegar í efsta sæti deildarinnar og getur styrkt stöðu sína á toppnum enn frekar með sigri gegn ÍA næsta þriðjudag, en þarf að gera það án Tómasar.

„Engin óskastaða að selja frá okkur lykilmann“

„Líkt og við höfum sagt þá er engin óskastaða að selja frá okkur lykilmann en þegar svona tækifæri koma upp þá styðjum við auðvitað okkar mann í því. Við fengum ásættanlega upphæð og Tómas stökk að sjálfsögðu á það að fara í skosku úrvalsdeildina. 

Við þökkum honum fyrir sitt frábæra framlag til félagsins og erum sannfærðir um að hann muni standa sig vel á nýjum stað,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals í tilkynningu félagsins á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×