Lífið

Walking Dead-leikkona látin

Atli Ísleifsson skrifar
Kelley Mack á kvikmyndahátíðinni í Chicago árið 2021.
Kelley Mack á kvikmyndahátíðinni í Chicago árið 2021. Getty

Bandaríska leikkonan Kelley Mack, sem þekktust er fyrir að hafa farið með hlutverk í þáttunum The Walking Dead, er látin, 33 ára að aldri.

Bandarískir fjölmiðlar segja hana hafa látist 2. ágúst síðastliðinn, en hún hafði áður greinst með æxli í miðtaugakerfi.

Í tilkynningu á Instagram-síðu Mack segir að þetta „bjarta og brennandi ljós“ hafi flust þangað sem við verðum öll á endanum að fara.

Mack fór með hlutverk Addy í níundu þáttaröð uppvakningaþáttanna The Walking Dead, en alls voru framleiddar ellefu þáttaraðir á árunum 2010 til 2022. Á leikaraferli sínum fór hún einnig með hlutverk í Chicago Med og 9-1-1 og kvikmyndum á borð við Broadcast Signal Intrusion og Delicate Arch.

Leikkonan kom einnig að talsetningu Óskarsverðlaunamyndarinnar Spider-Man: Into the Spider-Verse þar sem hún var staðgengill Hailee Steinfeld sem talaði fyrir persónu Gwen Stacy.

Mack ólst upp í Cincinnati í Ohio og menntaði sig til leikara við Chapman-háskólann í Kaliforníu. Hún hafði búið og starfað í Los Angeles síðustu ellefu árin.

Mack lætur eftir sig foreldrana Kristen og Lindsay Klebenow, systkinin Kathryn og Parker, og kærastann Logan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.