Innlent

Barinn við barinn en gerandinn farinn

Agnar Már Másson skrifar
Riddarinn í Engihjalla.
Riddarinn í Engihjalla. Vísir/Anton Brink

Lögregla leitar enn að manni sem veitti öðrum manni höfuðhögg á bar við Engihjalla í nótt og flúði svo vettvang.

Líkamsárásin átti sér stað skömmu eftir miðnætti í nótt en greint var frá henni í dagbók lögreglu í morgun.  Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Fórnarlambið var slegið í andlitið og hlaut áverka, segir Kristmundur Stefán Einarsson aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðiu í samtali við Vísi og útskýrir að atvikið flokkist sem meiriháttar líkamsárás vegna áverka í andliti.

Fórnarlambið var flutt á slysadeild til aðhlynningar en atvikið átti sér stað í Engihjalla í Kópavogi, að sögn varðstjórans. Hann hafi nú verið útskrifaður af spítala.

Kristmundur segir að lögregla reyni nú að að hafa uppi á gerandanum meðal annars með því að skoða myndbandsupptökur og leita að vitnum. 

Kristmundur kveðst getur ekki gefið upp hvort þolandi og gerandi þekktust og gefur heldur ekki upp aldur eða þjóðerni aðila en staðfestir að þeir séu ekki undir sjálfræðisaldri. Ekki sé hægt að slá því föstu hvort báðir menn hafi verið ölvaðir.

Að því er fréttastofa kemst næst er aðeins ein knæpa í Engjahjalla, Ölstofan Riddarinn, en ekki hefur tekist að ná í forsvarsmenn veitingahússins, sem áður hét Publin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×