Enski boltinn

Dýrasti leik­maður í sögu City lánaður til Everton

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jack Grealish mun spila með Everton á komandi tímabili.
Jack Grealish mun spila með Everton á komandi tímabili. everton

Jack Grealish, dýrasti leikmaður sem Manchester City hefur nokkurn tímann keypt, hefur verið lánaður til Everton. Lánssamningnum fylgir kaupmöguleiki sem hljóðar á um fimmtíu milljónum punda.

Everton tilkynnti Grealish á miðlum félagsins en greint var frá því í gær að hann væri á leiðinni til félagsins.

Grealish er dýrasti leikmaður í sögu Manchester City, hann kom frá uppeldisfélaginu Aston Villa fyrir um hundrað milljónir punda árið 2021.

Hann var hluti af City liðinu sem vann þrennuna árið 2023 en hefur verið orðaður við brottför frá félaginu eftir að hafa aðeins tekið þátt í sextán leikjum á síðasta tímabili og verið skilinn eftir heima meðan City fór á HM félagsliða.

Grealish var, samkvæmt Sky Sports, í leit að meiri spiltíma í von um að vera valinn í HM-hóp Englands næsta sumar.

Grealish verður sjötti leikmaðurinn sem Everton fær til félagsins í sumar, á eftir Carlos Alcaraz, Thierno Barry, Mark Traves, Adam Aznou og Kiernan Dewsbury-Hall, sem kom á dögunum frá Chelsea.

Everton hefur leik í ensku úrvalsdeildinni næsta mánudag gegn Leeds. 

Hér má tryggja sér áskrift að enska boltanum hjá Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×