Fótbolti

FCK rass­skellti frændur sína frá Mal­mö

Siggeir Ævarsson skrifar
FCK menn fagna
FCK menn fagna Twitter@FCKobenhavn

FCK er komið örugglega áfram í Meistaradeild Evrópu eftir algjöran yfirburðasigur á Malmö í kvöld.

Fyrri leikur liðanna var nokkuð bragðdaufur og endaði 0-0 en allt annað var uppi á teningnum í kvöld þar sem Kaupmannahafnarbúar léku við hvurn sinn fingur og unnu að lokum sanngjarnan 5-0 sigur. 

Gestirnir áttu mögulega að fá víti í stöðunni 2-0 en eftir yfirferð í VAR var ekkert dæmt og leikur gestanna hrundi algjörlega í kjölfarið. FCK voru að sögn sjónvarvotts einfaldlega „ljósárum betri“ í kvöld. Frammistaða gestanna var ekki upp á marga fiska en þeir voru baulaðir af velli af eigin stuðningsmönnum í leikslok.

Íslendingarnir þrír í liðunum komu lítið við sögu að þessu sinni. Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson sat allan tímann á bekknum hjá FCK og sömu sögu er að segja af Arnóri Sigurðssyni í liði Malmö en Daníel Tristan Guðjohnsen kom inn á í lið Malmö á 80. mínútu.

FCK mætir Basel frá Sviss í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×