Enski boltinn

Nýja stór­stjarna Liverpool fékk ekki að hafa sjón­varp heima hjá sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florian Wirtz í leik með Liverpool í fyrsta leik sínum á Anfield.
Florian Wirtz í leik með Liverpool í fyrsta leik sínum á Anfield. Getty/Carl Recine

Florian Wirtz er nýjasta stjarnan hjá Englandsmeisturum Liverpool sem keyptu hann í sumar fyrir metfé frá þýska félaginu Bayer Leverkusen. Saga Wirtz er samt svolítið mikið öðruvísi en annarra ungra leikmanna í dag.

Wirtz, sem er 22 ára, hefur unnið markvisst að því að verða fótboltamaður alla tíð og þykir nú einn sá mesta spennandi í heiminum.

Hann fékk mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni en þurfti einnig að fara eftir mjög hörðum reglum í uppeldinu. NRK segir frá.

Foreldrar hans héldu utan um öll peningamál hans, sáu til þess að hann fékk alls til alls og að fátt væri að trufla hann utan fótboltans. Hann fékk ekki að ganga í launin sín heldur fékk hann vissa vasapeninga á viku.

Það er ljóst að margur ungur knattspyrnumaðurinn missir fótanna þegar peningarnir og freistingarnar fara að banka á dyrnar en fjölskylda Wirtz passaði upp á það að einbeitingin væru á hárréttum stað.

The Telegraph sagði meðal annars frá því að Wirtz fékk ekki að hafa sjónvarp heima hjá sér þegar hann var lítill og að fjölskyldan notaði frekar reiðhjól en bíla til að ferðast á milli.

Wirtz fjölskyldan fer svo sannarlega sínar eigin leiðir og foreldrarnir eru ennþá umboðsmenn hans í dag þrátt fyrir að samningar hans hafi hækkað umtalsvert með árunum.

„Ég hafði enga aðra valkosti en að vera úti og æfa. Ég er líka ánægður með það,“ sagði Florian Wirtz við Bundesliga Magazine.

Eldri systir hans Juliane Wirtz hefur einnig blómstrað sem fótboltakona en hún spilar með Leverkusen og hefur spilað leiki fyrir yngri landslið Þjóðverja.

Florian Wirtz var yngsti markaskorarinn í Bundesligunni og er nú orðinn dýrasti þýski knattspyrnumaður sögunnar.

Annað kvöld spilar hann síðan sinn fyrsta leik með Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×