Íslenski boltinn

Fram spilar og selur treyjur til styrktar minningar­sjóðs Bryn­dísar Klöru

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sigurjón Rúnarsson og Una Rós Unnarsdóttir, leikmenn Fram. 
Sigurjón Rúnarsson og Una Rós Unnarsdóttir, leikmenn Fram. 

Fram heldur tvo styrktarleiki í vikunni og selur sérútbúnar treyjur til styrktar minningarsjóðs Bryndísar Klöru. Sömuleiðis mun allur ágóði af miðasölu á leikjum Fram - KR í kvöld og Fram - Víkings á miðvikudag renna í sjóðinn. 

„Gríðarlega mikilvægt málefni“

Þetta er annað árið í röð sem Fram stendur fyrir slíku framtaki, á síðasta ári var spilað í treyjum til styrktar Ljóssins en í ár mun ágóðinn renna í minningarsjóð Bryndísar Klöru, táningsstelpu sem var myrt í hnífstunguárás á Menningarnótt á síðasta ári.

„Við viljum alltaf láta gott af okkur leiða og styrkja góð málefni. Við vorum með Ljósið í fyrra, flotta leiki sem tókust mjög vel.

Hið sama er uppi á teningunum núna með minningarsjóð Bryndísar Klöru, það er mikilvægt að við hugum að okkar unga fólki, gríðarlega mikilvægt málefni og við vildum leggja okkar lið í því“ sagði Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Guðrún Inga Sívertsen er formaður minningarsjóðs Bryndísar Klöru og sagði styrkinn eiga eftir að renna til stofnunar Bryndísarhlíðar, sem vonir eru bundnar við að opni á nýju ári.

„Bryndísarhlíð verður húsnæði fyrir börn sem verða fyrir ofbeldi. Þar verður tekið á móti börnunum og þau fá það heilbrigðisúrræði sem þau þurfa“ sagði Guðrún Inga og þakkaði öllum þeim hafa styrkt verkefnið en í vikunni verður, auk leikja Fram, safnað styrkjum í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina.

Fyrir leikina tvo hefur Fram látið útbúa sérstakar treyjur sem verða til sölu á leikjunum og á heimasíðu Errea.

„Það er búningurinn sem er aðalmálið. Við erum með sérútbúna búninga fyrir báða leikina, svartir og með smá bleiku. Við vildum gera þessum leikjum mjög hátt undir höfði. Við viljum gera þetta almennilega og erum búin að undirbúa þetta virkilega vel…

Við erum mjög stolt af því að geta verið með sér búning við svona tækifæri. Það er hægt að kaupa og styrkja málefnið þannig beint“ sagði Guðmundur og þakkaði Errea og öðrum styrktaraðilum Fram mikið fyrir þeirra framlag við verkefnið.

„Þetta er þarft málefni og ég hvet alla til þess að mæta á leikinn“ sagði Guðmundur einnig.

Leikur Fram og KR fer á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal í kvöld. Miðasala fer fram hjá Stubbi, styrktartreyjan verður til sölu á vellinum en fyrir þá sem ekki komast þangað má kaupa treyjuna á heimasíðu Errea og horfa á leikinn í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×