Enski boltinn

Forest heldur á­fram að versla

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arnaud Kalimuendo var frumsýndur á City Ground í morgun.
Arnaud Kalimuendo var frumsýndur á City Ground í morgun. nottingham forest

Eftir að hafa tekið því frekar rólega framan af félagaskiptaglugganum hefur Nottingham Forest gefið vel í síðustu daga og samið við þrjá nýja leikmenn. Tveir yngri landsliðsmenn Englands skrifuðu undir um helgina og Arnaud Kalimuendo, yngri landsliðsmaður Frakklands, skrifaði undir samning við félagið í dag.

Kalimuendo kemur til félagsins fyrir um 26 milljónir punda frá Rennes í frönsku úrvalsdeildinni, þar sem hann skoraði 18 mörk í 34 leikjum á síðasta tímabili. Hann er 23 ára gamall framherji sem var hluti af silfurliði Frakklands á Ólympíuleikunum í fyrra og gerði fimm ára samning við Forest.

Kalimuendo er þriðji leikmaðurinn sem Forest kaupir á jafnmörgum dögum, um helgina komu Omari Hutchinson og James McAtee til félagsins.

Allir þrír eru sóknarþenkjandi leikmenn og bætast við sóknarmennina sem Forest sótti fyrr í sumar, Igor Jesus og Dan Ndoye, sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Forest um helgina í 3-1 sigri gegn Brentford.

Auk þeirra er Chris Wood ennþá að raða inn mörkum og Taiwo Awoniyi bíður spenntur eftir tækifæri á bekknum.

Þjálfarinn Nuno Espirito Santos nefndi það ítrekað í viðtölum í síðustu viku að liðið þyrfti að styrkja sig sóknarlega, fyrir átökin í enska boltanum og þá sérstaklega vegna þess að Forest tekur þátt í Evrópudeildinni í vetur, sem eykur leikjaálagið um að minnsta kosti átta leiki.

Forest hlustaði á þjálfarann og hefur eytt 90 milljónum í þessa þrjá leikmenn síðustu daga, enginn skortur ætti því að vera á sóknarþenkjandi leikmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×