Fótbolti

Vill fá meira en níu milljarða frá FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lassana Diarra fór til Rússland undir lok ferils síns en það endaði ekki vel.
Lassana Diarra fór til Rússland undir lok ferils síns en það endaði ekki vel. EPA/SERGEI ILNITSKY

Fyrrum leikmaður franska landsliðsins í fótbolta sækist nú eftir svakalegum skaðabótum frá Alþjóða knattspyrnusambandinu.

Lassana Diarra lék á sínum tíma 34 landsleiki fyrir Frakka og lék með liðum eins og Real Madrid, Chelsea og Arsenal á farsælum ferli.

Diarra vill fá skaðabætur eftir að FIFA stóð í vegi fyrir félagskiptum hans fyrir tíu árum síðan. Diarra sækist eftir 65 milljónum evra í skaðabætur eða meira en 9,3 milljörðum íslenskra króna.

Diarra fagnaði sigri í málinu hjá Evrópudómstólnum síðasta haust og vill nýta sér það til að fá bætur hjá Alþjóða knattspyrnusambandinu.

Evrópudómstólinn komst að þeirri niðurstöðu að FIFA hefði ekki mátt koma í veg fyrir félagsskipti hans frá rússneska félaginu Lokomotiv Moskvu til belgíska félagsins Charleroi. Belgíska félagið hætti við að bjóða honum samning þegar FIFA lokaði á félagsskiptin.

Diarra taldi sig vera lausan frá Rússlandi þegar félagið sagði upp samningi hans sumarið 2014 fyrir að neita að mæta á æfingar. Allt varð vitlaust á milli Diarra og þjálfara rússneska félagsins en Diarra var þar á samningi til ársins 2017.

Félagsskiptareglur FIFA komu í veg fyrir að hann kæmist til Charleroi. Hann mátti að þeirra mati ekki semja við annað félag á meðan ekki var búið að ganga frá lausum endum í Moskvu. Evrópudómstóllinn var á allt annarri skoðun en málið hefur tekið heilan áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×