Fótbolti

Fagnaði með syni sínum en var vísað af leik­vanginum: „Þetta er sonur minn“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edvin Becirovic fagnaði sigurmarki sínu með föður sínum í stúkunni.
Edvin Becirovic fagnaði sigurmarki sínu með föður sínum í stúkunni. @eedvinb

Edvin Becirovic var hetja GAIS í sænsku deildinni um helgina en faðir hans lenti aftur á móti í smá vandræðum í öllum æsingnum eftir markið mikilvæga.

Becirovic yngri kom inn á sem varamaður hjá GAIS og tryggði liðinu sigur á Hammarby með marki á 88. mínútu.

Þessi 25 ára gamli leikmaður fagnaði með því að hlaupa að stúkunni og finna föður sinn í stúkunni. Þeir fögnuðu síðan markinu vel saman. Faðmlag sem fékk flesta ef ekki alla til að hlýna aðeins um hjartaræturnar.

@Sportbladet

„Hann skipti mig svo ótrúlega miklu máli og þau hafa staðið við bakið á mér allt frá byrjun. Það var frábært að fjölskyldan og vinirnir voru í stúkunni. Þau mæta á alla heimaleiki en eru kannski aðeins latari að mæta á útileikina,“ sagði Edvin Becirovic við Sportbladet.

Becirovic segir að faðir hans fylgist mjög vel með honum og það mátti sjá að pabbinn var að springa úr stolti þegar strákurinn skoraði svona mikilvægt mark fyrir liðið sitt.

Öryggisverðir á leikvanginum voru hins vegar ósáttir með að pabbinn fór út fyrir áhorfendasvæðið til að fagna markinu með syni sínum. Hann var því rekinn út af leikvanginum.

„Þetta er sonur minn, þetta er sonur minn,,“ öskraði hann á meðan öryggisverðirnir vísuðu honum i burtu af svæðinu.

Göran Rickmer, yfirmaður öryggismála, segist ætla að fylla út skýrslu og hún fari til yfirvalda. „Við ráðum því ekki hvað verður úr því eða hvar hún endar,“ sagði Rickmer.

Strákurinn vissi þó ekkert um ófarir pabba síns þegar blaðamenn ræddu við hann eftir leikinn.

„Nei, ég veit ekkert um það. Ég er bara ánægður með að hafa skorað,“ sagði Edvin Becirovic.

Þetta var annað deildarmark Edvin Becirovic á tímabilinu en það fyrsta síðan í sigri á Norrköping í lok maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×